Muesli (eiginlega granóla)

Grunninn að þessari uppskrift fékk ég um daginn hjá Smára bróður. Hún er örlítið breytt en ekki mikið, megin uppistaðan er sú sama. Þetta er MJÖG gott muesli og mun betra en það sem maður kaupir út í búð, fyrir utan það að vera milljón sinnum hollara. Það er nú bara brandari að skoða innihald morgunkorna. Af hverju er það ekki selt í nammideildinni? Súkkulaði, hunang, sykur og síróp á ekki heima í morgunmat!! Þetta muesli er sem sagt með afskaplega lítilli viðbættri fitu (einungis holl fita) og alveg pakkfullt af vítamínum. Það er heldur ekki of sætt og það besta er að maður getur sjálfur stjórnað því hversu sætt það er og hver meðlimur heimilisins getur ákveðið nákvæmlega hvað á að vera sínu morgunkorni! Ef þið hafið hnetu- eða fræofnæmi má sleppa heslihnetunum og sólblómafræjunum.

Gott er að flýta fyrir sér með því að nota heslihnetur sem búið er að rista og saxa. Athugið að þið þurfið stóra skál og stórt sigti til að útbúa muesli uppskriftina. Einnig er gott að nota olíuúðabrúsa (sem þið blandið í sjálf).

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Muesli (eiginlega granóla)

Dugar í rúma viku

Innihald

  • 40 g heslihnetur, þurrristaðar og saxaðar
  • 220 g tröllahafrar (eða grófvalsað haframjöl)
  • 100 g spelthafrar (lítur út eins og gróft haframjöl)
  • 90 g döðlur, saxaðar gróft
  • 60 g þurrkaðar aprikósur (þessar brúnu), saxaðar gróft
  • 60 g sólblómafræ
  • 20 g gróft kókosmjöl eða kókosflögur (má sleppa)
  • 120 g rúsínur
  • 1 mtsk kókosolía
  • 3 mtsk agavesíróp eða hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
  • 3 msk vatn í úðabrúsa

Aðferð

  1. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið hneturnar gróft.
  2. Setjið spelthafra og tröllahafra í sigti og hristið þangað til allt kusk er farið úr því. Setjið í stóra skál. Bætið sólblómafræjum og hnetunum út í skálina og hrærið vel.
  3. Saxið aprikósurnar og döðlurnar gróft.
  4. Setjið agavesíróp, kókosolíu og vatn í úðabrúsa og hristið vel. Úðið nokkrum gusum út í skálina og hrærið vel.
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og dreifið muesliinu á plötuna. Úðið nokkrum gusum yfir muesliið og hrærið vel.
  6. Bakið við 160°C í 10 mínútur, takið úr ofninum, úðið yfir muesliið og hrærið í því. Setjið aftur inn í ofn og bakið í 10 mínútur.
  7. Takið aftur úr ofninum, hrærið aprikósum, döðlum, rúsínum og kókosmjöli út í muesliið. Úðið yfir muesliið, setjið það aftur inn í ofn og bakið í um 10 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það má setja allt mögulegt í mueslið og um að gera að prófa sig áfram. T.d. mætti nota sesamfræ, valhnetur, cashewhnetur, fíkjur, þurrkaðan ananas, þurrkað mangó, þurrkuð epli o.s.frv.
  • Ef þið viljið frekar baka ávextina með frá upphafi skuluð þið lækka hitann í 120°C og hita muesliið lengur. Athugið þó að rúsínurnar gætu orðið mjög harðar.
  • Þessi blanda hentar vel í brauð og muffinsbakstur.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Olíuúðabrúsar fást t.d. í Pipar og salt og í fleiri verslunum sem selja vörur til heimilisins.
  • Spelthafrar fást í heilsubúðum.
  • Mikilvægt er að kaupa lífrænt ræktaðar aprikósur (þessar brúnu) því þessar appelsínugulu er búið að meðhöndla með efnum til að þær líti betur út.
  • Geymist í nokkrar vikur í lokuðu plastíláti.