Möndlukökur með súkkulaðikremi

Möndlur eru mjög kalk- og próteinríkar og macadamiahnetur innihalda holla einómettaða fitu, trefjar og einnig innihalda þær kalk og prótein. Þetta eru sem sagt afar hollar smákökur og gaman að bjóða upp á öðruvísi og óbakaðar kökur með kaffinu. Nota má möndlur í allan botninn í stað macadamiahneta en þá verður hann aðeins þurrari. Ef þið viljið ekki súkkulaði má nota carob í kremið í staðinn.

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.


Sniðugar litlar möndlukökur með kremi

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Möndlukökur með súkkulaðikremi

Gerir 12-15 stykki

Innihald

Botn:

  • 50 g möndlur
  • 50 g macadamiahnetur
  • 2 msk agavesíróp
  • 1 tsk kókosolía

Krem:

  • 100 g cashewhnetur
  • 1 banani
  • 30 g kakó
  • 4 msk agavesíróp
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2 msk kókosolía

Aðferð

Botn – Aðferð:

  1. Setjið möndlur og macadamiahnetur í matvinnsluvél og malið í um 10 sekúndur eða þangað til fínkornótt.
  2. Á meðan vélin vinnur bætið þá agavesírópinu og kókosolíunni út í. Látið vélina vinna í um 10 sekúndur.
  3. Mótið kúlur úr deiginu og setjið á disk. Fletjið kúlurnar aðeins út með flötum lófanum.
  4. Setjið plastfilmu yfir bitana og geymið í ísskápnum.

Krem – Aðferð:

  1. Maukið cashewhnetur í matvinnsluvél á fullum krafti í 10-15 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar fínkornóttar eða maukaðar.
  2. Sigtið kakó út í matvinnsluvélina og bætið einnig salti, agavesírópi og banana út í.
  3. Maukið í nokkrar sekúndur þangað til allt er orðið vel blandað saman.
  4. Á meðan vélin vinnur, bætið þá kókosolíunni út í og maukið í um 15 sekúndur eða þangað til kremið er orðið silkimjúkt.
  5. Leyfið kreminu að stífna í klukkustund í ísskápnum.
  6. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið kremi á hverja köku, frekar þykkt þannig að fallegir toppar myndist. Ef þið eigið ekki sprautupoka getið þið sett kremið á með teskeið.
  7. Geymið kökurnar í lokuðu íláti í ísskáp eða í frystinum.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).