Mango- og bananamuffins með pecanhnetum

Það er eitthvað undursamlegt við mango, banana og pecanhnetur. Mango er gríðarlega mikið notað í Afríku og bananar einnig. Við Jóhannes vorum einu sinni á hóteli á Zanzibar í Tanzaníu sem heitir Zanzibar Coffee House. Hótelið var æðislegt og við uppgötvuðum að það var kaffibrennsla á fyrstu hæð Jóhannesi til mikillar gleði. Hvert herbergi hét eftir kaffilögunaraðferð eins og Espresso, Macchiato, Cappuchino o.s.frv. Herbergin voru dásamlega falleg og við vöknuðum upp á morgnana við óminn úr moskunum í kring. Morgunmatinn borðuðum við uppi á þaki hótelsins og þar var í boði heimatilbúið hnetumuesli, ferskir ávextir, ferskur djús, vöfflur og ég veit ekki hvað. Á jarðhæðinni er besta kaffihús Zanzibar og þar var hægt að fá mango muffins. Ég smakkaði þá reyndar ekki en ég gat spurt afgreiðslustúlkuna svona í grófum dróttum hvað væri í uppskriftinni. Ef þið eigið leið um Stone Town, Zanzibar þá megið þið ekki missa af þessum frábæra stað. Uppskriftin varð svolítið stór þannig að ég fékk 16 mjög stóra muffinsa en það má minnka uppskriftina og fá færri og minni. Það er fínt að frysta muffinsa tvo saman í poka og grípa svo með sér í nesti.


Mango- og bananamuffins með afrískum áhrifum

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Mango- og bananamuffins með pecanhnetum

Gerir 14-16

Innihald

  • 275 g mango, vel þroskað (þyngd eftir snyrtingu)
  • 50 g rúsínur eða saxaðar döðlur
  • 40 g saxaðar pecanhnetur eða valhnetur
  • 200 g spelti
  • 1 msk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk kanill
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 egg
  • 1 eggjahvíta
  • 2 bananar, vel þroskaðir
  • 1 msk kókosolía
  • 1 msk límónusafi
  • 90 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 msk agavesíróp

Aðferð

  1. Afhýðið mangoið og skerið kjötið í litla bita. Þið þurfið 275 g af mangoi.
  2. Saxið hneturnar frekar smátt.
  3. Sigtið saman í stóra skál: Spelti, lyftidufti og kanil. Hrærið vel.
  4. Afhýðið bananana og stappið þá. Setjið í aðra skál ásamt eggjum, agavesírópi, límónusafa, kókosolíu og rapadura hrásykri. Hrærið létt og bætið bönunum út í. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
  5. Blandið deiginu varlega saman (bara velta deiginu til og ALLS ekki hræra mikið). Deigið má vera ljótt og kekkjótt.
  6. Bætið mangobitum rúsínum (eða söxuðum döðlum) og hnetum saman við. Veltið deiginu við án þess að hræra.
  7. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  8. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  9. Bakið við 200°C í um 25-30 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.