Maís- eða hrísmjölsgrautur

Þessi uppskrift er ósköp venjuleg uppskrift að morgungraut fyrir yngsta fólkið. Grauturinn er léttur í maga og glúteinlaus. Til að venja börnin við annan mat síðar má mauka hrísgrautinn saman við t.d. banana, avocado, spergilkál o.s.frv. Mælt er með því að börn fái einungis móðurmjólk til 6 mánaða aldurs en ef foreldrar vilja gefa fasta fæðu fyrr, þá hentar maísgrautur vel. Uppskriftin kemur frá Sigrúnu Ásu vinkonu minni.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Maís- eða hrísmjölsgrautur

Einn skammtur

Innihald

 • 100 ml móðurmjólk/þurrmjólkurblanda
 • 100 ml kalt vatn
 • 2,5 msk lífrænt framleitt maísmjöl eða hrísmjöl fyrir ungbörn
 • 1 tsk kókosolía (eða önnur olía) eða smjör)  (ef notuð er tilbúin þurrmjólkurblanda)

Aðferð

 1. Setjið vatn og mjöl í pott.
 2. Látið suðuna koma upp og hrærið í á meðan.
 3. Lækkið hitann og hrærið áfram í 2-3 mínútur.
 4. Takið af og hrærið þurrmjólkurblöndunni/móðurmjólkinni saman við sem og olíunni ef þarf.

Gott að hafa í huga

 • Eftir 7-8 mánaða getur barnið fengið grauta úr haframjöli, rúgi, hirsi og byggi o.s.frv. Byrja skal varlega ef barnið skyldi hafa ofnæmi eða óþol gagnvart glúteini.
 • Börn eiga misjafnlega auðvelt með að kyngja mat svo bætið við meira af vatni/mjólk ef ykkur finnst það henta.
 • Vörur frá Holle, Babynat, Baby Organic og Organix eru mjög góðar og mæli ég með þeim.
 • Þegar barnið er komið vel á veg með að kyngja og er komið með góða matarlyst er gott er að bæta stöppuðum banana eða gufusoðinni peru/epli/mangoi út í grautinn.
 • Ekki er mælt með því að frysta grautinn.