Krydduð bláberjasulta
1. september, 2007
Það er eitthvað algerlega frábært við að blanda saman bláberjum og kanil...samsetningin er eins og fullkomið hjónaband. Svo væri titillinn líka fínn á klámmynd „Blá og krydduð" hmm eitthvað til að hugsa um. Þetta er sulta sem hægt er að gera á 5 mínútum ef til eru bláber í frystinum (eða nýtýnd úr móanum).  Sultan er frekar þunn (meira eins og sósa) og hentar afar vel t.d. á nýbakaðar vöfflur. Hægt er að nota sultuhleypi (pectin...ég nota aldrei, aldrei, aldrei gelatin) en mér finnst best að nota ekkert slíkt og gera frekar minna magn í einu (og geyma skemur). Hægt er að frysta sultuna og er gott að frysta hana í smáum skömmtum.
Bláberjasulta, krydduð og bragðmikil
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Krydduð bláberjasulta
Gerir um 200 ml af sultu
Innihald
- 200 g bláber
- 1 tsk sítrónusafi
- 0,25 tsk malaður negull (enska: cloves)
- 0,5 tsk kanill
- 4 msk agavesíróp
Aðferð
- Maukið bláberin smástund í matvinnsluvél (nokkrar sekúndur) eða kremjið þau vel með skeið.
- Sjóðið berin í litlum potti ásamt sítrónusafanum, kryddinu og agavesírópinu.
- Látið bullsjóða í nokkrar mínútur og hrærið vel.
- Hellið sultunni í skál eða í krukku.
- Geymist í viku í ísskáp en aðeins lengur ef krukkan hefur verið sótthreinsuð.
Gott að hafa í huga
- Sultuna má frysta. Best er að frysta hana í smáum skömmtum.
- Nota má sultuna sem heita (eða kalda) bláberjasósu ofan á t.d. bökur og ís.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
19. ágú. 2012
einstaklega góð
20. ágú. 2012
Gaman að heyra Drífa :)
28. ágú. 2012
Takk fyrir.