Kryddaðir muesli muffins
3. apríl, 2003
Þetta er uppskrift sem ég henti saman einn sunnudagsmorguninn. Ég hugsaði nefnilega með mér þegar ég var að borða morgunmatinn; fyrst maður notar haframjöl og þurrkaða ávexti í muffins, þá hlýtur maður að geta notað muesli líka ekki satt?? Það reyndist alveg vera rétt og þeir urðu bara mjög fínir. Það eina sem maður verður að athuga er að nota ekki muesli með sykri heldur bara hreint muesli. Best er að nota heimatilbúið muesli, eða ef þið finnið Dorset muesli í heilsubúðinni þá eru þau virkilega góð.
Ef þið hafið hnetuofnæmi getið þið keypt eða útbúið muesli sem ekki inniheldur hnetur.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Kryddaðir muesli muffins
Gerir um 10 muffins
Innihald
- 250 g spelti
- 70 g muesli (heimatilbúið eða úr ósykurbætt, úr heilsubúð)
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk kanill
- 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
- 0,5 tsk engifer, malað
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 80 g rapadura sykur eða ávaxtasykur
- 1 egg
- 225 ml sojajógúrt eða AB mjólk
- 75 g rúsínur
- 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
- 100 ml sojamjólk eða undanrenna (ef þarf)
Aðferð
- Sigtið saman í stóra skál: spelti, lyftiduft, kanil, múskat, engifer og sykur í stóra skál.
- Í annarri skál skuluð þið hræra eggið aðeins. Bætið út í skálina vanilludropum, barnamat og sojajógúrti. Hrærið vel saman og hellið út í stóru skálina. Hrærið varlega saman og gætið þess að hræra ekki of mikið, deigið á að vera kekkjótt og ljótt. Það á einnig að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
- Hellið svolítilli sojamjólk eða undanrennu út í skálina ef deigið er of þurrt. Byrjið fyrst á 50 millilítrum og bætið svo meira út í ef þarf.
- Blandið rúsínunum saman við varlega með stórri sleikju eða sleif. Ekki hræra, bara rétt hreyfa deigið.
- Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
- Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
- Bakið við 200°C í 20-25 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
- Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
- Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Nota má hreina jógúrt í staðinn fyrir sojajógúrt eða AB mjólk.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024