Kryddaðar skonsur með þurrkuðum ávöxtum

Þetta voru fyrstu skonsur sem ég bakaði og hef bakað þær milljón sinnum síðan. Ég skipti út sýrðum rjóma (sem var með 18% fitu) og notaði Buttermilk sem er afar fitulítið (sem mér finnst svo skrítið því Butter er jú smjör!). Buttermilk er í rauninni bara súrmjólk. Það eru einungis 2 matskeiðar af hlynsírópi í uppskriftinni sem þýðir að skonsurnar eru ekki of hitaeiningaríkar heldur. Svo notaði ég 2 matskeiðar af kókosolíu í staðinn fyrir smjör og þetta var svooo gott. Pakkfullar skonsur&;af vítamínum og hollustu og frábærar með bæði smurosti, sultu, osti eða bara hreinar með kaffinu. Bestar nýbakaðar því þá eru þær stökkar að utan en mjúkar að innan. Nammi nammi namm. Þessi uppskrift (breytti henni auðvitað aðeins) er úr Australians Women Weekly seríunni sem er svo fín.

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Kryddaðar skonsur með þurrkuðum ávöxtum

Gerir 12 skonsur

Innihald

  • 310 ml heitt, sterkt svart te (fínt að nota 2 tepoka og láta liggja í 5 mínútur). Hægt er að kaupa koffeinlaust, svart te
  • 50 g aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu), saxið smátt
  • 50 g döðlur, saxið smátt
  • 30 g þurrkuð epli (þessi brúnu), söxuð smátt
  • 60 g rúsínur
  • 450 g spelti
  • 4 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk kanill
  • 0,5 tsk engifer
  • 0,25 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 0,25 tsk negull (enska: clove)
  • 2 msk agavesíróp
  • 2 msk kókosolía
  • 100-125 ml Buttermilk (súrmjólk eða AB mjólk)

Aðferð

  1. Saxið döðlur, aprikósur og epli nokkuð smátt. Setjið í skál, setjið tepokana út í og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Setjið disk yfir skálina og látið ávextina liggja í teinu í 20 mínútur.
  2. Sigtið saman í stóra skál: spelti, lyftiduft, múskat, negul, engifer og kanil. Hrærið vel.
  3. Hrærið saman agavesírópi og kókosolíu og hellið út í stóru skálina. Hrærið vel.
  4. Hellið teinu af ávöxtunum (vökvi ekki notaður) og setjið ávextina út í stóru skálina.
  5. Hrærið súrmjólkina út í stóru skálina. Hnoðið deigið þangað til það er orðið mjúkt, þétt og sprungulaust.
  6. Setjið deigið á borð (stráið svolitlu spelti undir). Rúllið létt yfir deigið með kökukefli (eða notið handarbakið) þangað til þið eruð komin með 2 sm þykkt deig.
  7. Skerið út kökur (6 sm í þvermál) (nota má glas með skörpum brúnum eða kökuskurðarmót).
  8. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið skonsunum á plötuna. Sáldrið svolitlu spelti yfir skonsurnar (má sleppa).
  9. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Upplagt er að frysta skonsurnar. Best er að skera þær í tvennt, setja í poka og inn í frysti. Þá getur maður hent einum og einum helmingi í brauðristina þegar manni dettur í hug.
  • Í staðinn fyrir súrmjólk eða AB mjólk má nota hreina jógúrt. Einnig má nota 5% sýrðan rjóma frá Mjólku (án gelatíns). Þeir sem hafa mjólkuróþol geta auðveldlega skipt út framangreindum mjólkurafurðum og notað sojajógúrt + 1 msk sítrónusafa í staðinn).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Mikilvægt er að nota lífrænt ræktaðar, þurrkaðar aprikósur sem og epli því það sem ekki er lífrænt ræktað er búið að meðhöndla með efnum til að ávextirnir líti betur út, sbr. appelsínugular aprikósur!