Kornflekskökur

Ég ólst upp að hluta í Kanada og margt af því sem fólk af minni kynslóð þekkir, missti ég alveg af. Eins og t.d. Kardimommubænum, Dýrunum í Hálsaskógi, Stundinni okkar og kornflekskökum. Ég var í staðinn vel að mér í Sesame Street og hvernig maður á að gæta sín á því að laða ekki að sér skógarbirni á tjaldstæðum í klettafjöllunum. Bestu vinir mínir voru krakkar af mexikönskum uppruna en einnig átti ég 2 góða vini sem voru af Blackfoot Indiána ættbálki. Mér er mjög minnistætt þegar ég smakkaði mat þessarra krakka en hann var allt öðruvísi en það sem ég hafði vanist á. En fjölbreytileikinn er hollur fyrir börn og ég reyni að hafa það að leiðarljósi hvað mín börn varðar sem víla ekki fyrir sér að smakka á alls kyns tilraunum hjá mömmu. Líklega gildir þó einu hvar börn eru niðurkomin í heiminum, þau eiga eftir að fíla þessar kornflekskökur alveg í ræmur. Allavega fríkuðu mín börn algjörlega út (og mamman smá líka) þegar þessar voru tilbúnar í ísskápnum. Þær eru algjörlega frábærar.

Þessar kornflekskökur eru eilítið hollari en þær hefðbundnu því ég nota kornflögur frá Sollu en þær innihalda um helmingi minni sykur en þær hefðbundnu frá Kellog&;s. Ég nota ekki síróp í kökurnar og heldur ekki smjörlíki eða pálmafeit (að sjálfsögðu ekki). Nota má dökkt eða ljóst súkkulaði með hrásykri en einnig er gott að blanda saman báðum tegundum. Kökurnar mínar eru einnig trefjaríkari en þær hefðbundnu en ég nota rúsínur fyrir aukið járn- og trefjamagn. Ég nota einnig hnetur fyrir holla fitu en nota má döðlur í staðinn sé ofnæmi til staðar. 


Frábærar kornflekskökur í barnaafmælið

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Kornflekskökur

20-25 fremur litlar kökur

Innihald

 • 25 g heslihnetur (má sleppa og nota döðlur í staðinn)
 • 25 g rúsínur eða döðlur
 • 100 g lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri (dökkt eða ljóst)
 • 0,5 msk kókosolía
 • 90 g kornflögur (corn flakes) eða speltflögur (spelt flakes) úr heilsubúð 
 • Konfekt pappírsform eða lítil muffinsform

 

Aðferð

 1. Byrjið á því að þurrrista heslihneturnar á heitri pönnu. Þurrristið í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna af og hneturnar taka lit. Kælið hneturnar og nuddið hýðið af með fingrunum. Saxið hnetur og rúsínur frekar smátt.
 2. Saxið súkkulaði gróft og bræðið yfir vatnsbaði. (Setjið svolítið vatn í lítinn pott. Setjið skál ofan á pott þannig að skálin sitji á brúnunum. Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið yfir vægum hita). Gætið þess að ofhita ekki súkkulaðið og það má alls ekki fara dropi af vatni ofan í skálina. Bætið kókosolíu út í skálina og hrærið vel. Takið skálina af hitanum. 
 3. Hrærið rúsínum, hnetum og kornflögum út í skálina. Hrærið þannig að blandist vel saman en ekki merja flögurnar. Setjið 2 kúfaðar teskeiðar af blöndunni í hvert form.
 4. Geymið í kæli og berið kornflögukökurnar fram kaldar.

Nota má kókosmjöl eða döðlur/aprikósur í staðinn fyrir hnetur.
Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði.
Speltkornflögur fást í heilsubúðum og heilsudeildum stærri matvöruverslana.

Gott að hafa í huga

 • Nota má kókosmjöl eða döðlur/aprikósur í staðinn fyrir hnetur.
 • Nota má carob í staðinn fyrir súkkulaði.