Kornbrauð (Polenta) með fræjum

Mig langaði að prófa eitthvað annað en venjulegt speltbrauð og ákvað að prófa kornmjöl (polenta) sem er unnið úr maís. Brauðið varð svona líka prýðilegt, ofsalega létt og gott og frábært í brauðristinni 2 dögum síðar.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Vegan

Kornbrauð (Polenta) með fræjum

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 150 g kornmjöl (polenta)
 • 175 g spelti
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 25 g gul (eða brún) sinnepsfræ (enska: mustard seeds)
 • 25 g sólblómafræ
 • 25 g hirsi, heilt (enska: millet) 
 • 25 g haframjöl
 • 25 g birkifræ (geymið 1 teskeið til að setja yfir brauðið)
 • 1,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk agavesíróp
 • 1 stórt egg
 • 300 ml sojamjólk
 • 1 msk sítrónusafi

Aðferð

 1. Blandið saman í stóra skál; spelti, salti, lyftidufti, kornmjöli, sinnepsfræjum, sólblómafræjum, öllu nema 1 tsk birkifræjum, hirsi og haframjöli. Hrærið vel.
 2. Blandið saman 50 ml af sojamjólk og sítrónusafanum. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
 3. Hrærið egginu, agavesírópinu og afganginum af sojamjólkinni saman. Hellið út í stóru skálina.
 4. Hrærið ekki of mikið í deiginu (um 8-10 sinnum).
 5. Bætið meiri vökva út í ef þarf. Gætið þess þó að deigið verði ekki of blautt. Deigið á að vera þannig að það sé nokkuð blautt, en má t.d. ekki leka hratt af sleif og ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það.
 6. Setjið bökunarpappír í brauðform.
 7. Hellið deiginu í brauðformið og dreifið afganginum af birkifræjunum yfir.
 8. Bakið við 190°C í 45-55 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Gott er að bera brauðið fram með hummus, túnfisksalati, rækjusalati, smurosti og auðvitað osti!
 • Polenta fæst í heilsubúðum og heilsudeildum matvöruverslana (og stundum í bakstursdeildunum).
 • Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
 • Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.
 • Nota má hunang eða hlynsíróp í staðinn fyrir agavesírópið.
 • Til að athuga hvort brauðið er tilbúið getið þið stungið hnífi í miðju þess. Ef hnífurinn kemur nánast hreinn út er brauðið tilbúið. Ef ekki má baka það í 10 mínútur í viðbót (og endurtaka þá leikinn).
 • Ef þið viljið harða skorpu allan hringinn þá er gott að taka brauðið úr forminu síðustu 10 mínúturnar og setja á hvolf í ofninn.
 • Sinnepsfræ fást í kryddhillunum í flestum stærri matvöruverslunum.