Korma kjúklingur með frönskum baunum og raita gúrkusósu

Við förum stundum á indverska staði hérna í London og þegar við förum með fólki sem er ekki mikið fyrir kryddað, þá mælum við með „Chicken Korma” því það er mildur réttur og ekki með miklum chili pipar. Afskaplega bragðgott. Aðaluppistaðan er korma krydd (blanda úr mörgum kryddtegundum eins og t.d. coriander, cumin, sinnepsfræjum, fenugreek og lárviðarlaufi), möndludufti og jógúrti eða mjólk (á að vera rjómi en ég nota hann ekki). Þessi útgáfa er holl en ekki endilega hitaeiningasnauð (út af möndlunum) en í staðinn prótein- og kalkrík og með hollri fitu. Ég skipti rjómanum út fyrir fitusnauða jógúrt en ef þið viljið frekar nota rjóma, þá er það líka hægt. Einnig má nota matreiðslurjóma eða hafrarjóma.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Korma kjúklingur með frönskum baunum og raita gúrkusósu

Fyrir 3-4

Innihald

 • Undirbúið fyrst raita gúrkusósuna
 • 700 g grillaður kjúklingur, skinnlaus og skorinn í bita
 • 2 laukar, afhýddir og sneiddir þunnt
 • 1 tsk kókosolía + smá vatn
 • 5 msk corma curry powder
 • 1 gerlaus grænmetisteningur
 • 300 ml vatn
 • 2 tsk tómatmauk (puree)
 • 3 tsk agavesíróp
 • 125 g tómatar, skornir í bita
 • 300 ml léttmjólk eða fitulaus jógúrt
 • 2 msk maísmjöl, hrært út í mjólkinni
 • 250 g „French Beans”,  snyrtið og skerið í 1 sm langa bita
 • 30 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
 • 20 g möndlur, þurrristaðar á pönnu

Aðferð

 1. Afhýðið laukana og sneiðið þunnt.
 2. Hitið kókosolíuna á stórri pönnu og mýkið laukinn í 7-10 mínútur. Ef þarf meiri vökva, bætið þá vatni við.
 3. Hrærið karríinu saman við og hitið í 2 mínútur.
 4. Bætið vatninu, grænmetisteningnum, tómatmaukinu, agavesírópinu, tómötunum, mjólkinni og svolitlu af salti út á pönnuna. Hrærið vel og látið sjóða í um 10 mínútur.
 5. Bætið baununum og kjúklingnum saman við og hitið í 20 mínútur.
 6. Skerið kjúklinginn í bita og bætið út á pönnuna ásamt möndluduftinu. Hitið í um 15 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er tilbúinn.
 7. Hitið litla pönnu (án olíu) og þurrristið möndlurnar í nokkrar mínútur. Dreifið þeim yfir réttinn.
 8. Berið fram með raita gúrkusósu.

Gott að hafa í huga

 • Það er gott að bera fram chapati brauð með þessum rétti. Berið einnig fram með hýðishrísgrjónum eða byggi.
 • Það er alveg hægt að nota tofu eða grænmeti í staðinn fyrir kjúkling. T.d. má nota blómkál og spergilkál, gulrætur, kartöflur o.fl. 
 • „French Beans” eru langar og mjóar baunir, sem eru eins og stönglar þ.e. ekki með eiginlegum „baunum” innan í og maður getur borðað þá hráa.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Notið „hamingjusaman kjúkling" (free range) ef þið mögulega getið.
 • Ef þið notið ekki grillaðan kjúkling getið þið steikt kjúklinginn (skinnlausan) upp úr smá kókosolíu og vatni.