Kókosbrauðbollur

Þetta er það brauð sem ég baka sennilega hvað oftast og geri þá yfirleitt brauðbollur frekar en brauð. Mér finnst það svo létt og fínt og alveg ofsalega bragðgott. Ekki vera smeyk við kókosmjölið, það er alls ekki yfirþyrmandi bragð af því, aðeins keimur og brauðið smakkast vel með alls kyns áleggi.


Kókosbrauðbollur í skál frá Uganda

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Kókosbrauðbollur

Gerir 8-10 brauðbollur

Innihald

  • 200 g spelti
  • 4 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 msk kókosolía (má sleppa ef notuð er kókosmjólk)
  • 200-300 ml AB mjólk
  • 1 tsk agavesíróp
  • 75 ml kókosmjólk (má sleppa og nota mjólk)
  • 50 g sólblómafræ
  • 30 g kókosmjöl

Aðferð

  1. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í skál.
  2. Bætið kókosolíunni saman við.
  3. Blandið saman AB mjólk, agavesírópi og kókosmjólk (ef hún er notuð en annars mjólk). Hellið vökvanum út í (byrjið með helminginn og bætið svo við ef þarf) og hrærið varlega saman (ekki hræra meira en 8-10 sinnum).
  4. Bætið sólblómafræjunum og kókosmjölinu saman við. Hrærið nokkrum sinnum.
  5. Bætið meiri vökva út í ef þarf. Gætið þess þó að deigið verði ekki of blautt. Deigið á að vera þannig að hægt sé að móta bollur með góðu móti en ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Mótið um 10 bollur í höndunum (eða notið ískúluskeið) og setjið á bökunarplötuna.
  7. Bakið við 180°C í um 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það má setja ýmislegt út í deigið eins og t.d. sólþurrkaða tómata, ólífur, hvítlauk, rifnar gulrætur og kryddjurtir.
  • Gott er að dreifa sesamfræjum yfir bollurnar áður en þær eru bakaðar en einnig má setja sesamfræ, hörfræ, sólblómafræ o.fl. í deigið.
  • Nota má súrmjólk eða jógúrt í staðinn fyrir AB mjólk.
  • Í staðinn fyrir AB mjólk getið þið notað haframjólk, sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
  • Ef þið notið ekki jógúrt, AB mjólk eða súrmjólk getið þið blandað mjólkinni sem þið notið, saman við 1 msk sítrónusafa og látið standa á borðinu þangað til hún fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. repjuolíu.

Ummæli um uppskriftina

fjolast
07. jan. 2011

Búin að skoða þessa uppskrift oft...en ákvað að skella í skál núna og svo í ofninn. Svo er bara að bíða og sjá hvernig útkoman verður.
Takk fyrir frábæran vef....ég er alltaf að skoða og skoða kannski ekki alveg eins dugleg að elda ;-)

Hulda Freyja
06. apr. 2011

Ég er búin að baka þetta brauð 4 sinnum síðan á mánud. (sem sagt einu sinni á dag) og alltaf klárast það strax. Alveg rosalega gott.

sigrun
07. apr. 2011

Ha ha þú verður að passa að 'overdoas-a' ekki á kókosbrauðbollum. Gott samt að heyra að þér líkar þær. Það má líka frysta þær og hita svo örsnöggt upp í ofninum, svona ef þú vilt ekki baka oft í viku :)

Ásta
03. maí. 2011

Mæli með þessum, þetta eru vafalaust bestu brauðbollur sem ég hef nokkurn tímann bakað. Alveg himneskar! :)

sigrun
03. maí. 2011

Frábært Ásta :)

gestur
21. júl. 2011

ótrúlega góðar bollur, takk kærlega fyrir mig :) átti ekki sólblómafræ þannig að ég maukaði bara pecan hnetur, rosalega gott :)

sigrun
21. júl. 2011

Gaman að heyra :) Pecanhnetur hafa örugglega ekki skaðað bollurnar mmmmmm.

Steinunn Eik
01. sep. 2011

Ég bakaði þessar bollur áðan og þær voru æðislega góðar með gulrótar- og kókossúpunni þinni frá Zanziba! Ég stækkaði báðar uppskriftirnar og sjö manna fjölskylda hámaði í sig góðgætið! Ég bætti við hvítlauk, ómöluðu byggi og hörfræjum úr í bollurnar og þær voru sjúklega góðar! Takk fyrir frábæra síðu!!

sigrun
01. sep. 2011

Vá! Sjö manna fjölskylda! Frábært að ykkur líkaði maturinn vel :) Viðbótin í bollunum hljómar vel!!

gestur
22. sep. 2011

Hæhæ, hver er munurinn á vínsteinslyftidufti og venjulegu? Er hægt að nota venjulegt í þessa uppskrift?

sigrun
22. sep. 2011

Sjá upplýsingar hér: Vínsteinslyftiduft

tgs
05. des. 2011

Án mjólk?...Nei! Er með 200 ml af AB-mjólk. Ekki fyrir fólk með mjólkurofnæmi. Má ekki auglýsa uppskriftinn sem "án mjólk"

sigrun
05. des. 2011

Hárrétt athugað, ég var alltaf með sojamjólk í uppskriftinni en er búin að breyta yfir í AB mjólk sem mér finnst betra..ég er búin að breyta, takk.

gestur
15. feb. 2012

Ég prófaði þessar áðan, og eru þær allra bestu brauðbollur sem ég hef prófað hingað til!

Þetta er í fyrsta sinn sem ég nota uppskrift af síðunni en þar sem ég hef verið hægt að slípa mataræðið til hér á heimilinu mun ég pottþétt vera fastagestur hér framvegis ;) Takk fyrir frábæran vef !

sigrun
15. feb. 2012

Gaman að heyra og vertu velkomin sem oftast :)

gestur
23. feb. 2012

Er uppskriftin nokkuð Vegan heldur fyrst það er AB mjólk í henni?..

sigrun
23. feb. 2012

Að sjálfsögðu ekki... (vá hvað þessi uppskrift er eitthvað ekki að merkjast rétt hjá mér ha ha). Búin að lagfæra, takk :)

Gunnhildur
07. mar. 2012

Þessar eru uppáhald hjá öllum í fjölskyldunni :) Búin að baka þær milljón sinnum og alltaf jafn góðar!
Takk fyrir frábæran vef :)

sigrun
07. mar. 2012

Gaman að heyra Gunnhildur :)

Elín Ýr
14. apr. 2012

Ljúffengar bollur sem sonurinn (2 àra álitsgjafinn)varð bálskotin í. Þær urðu aftur á móti fremur flatar. Var að hugsa um hvort það geti stafað af því að deigið hafi verið of blautt?

Byrjaði að baka fyrir 2 árum þökk sé síðunni þinni, hef ekki stoppað síðan :)

sigrun
14. apr. 2012

Gaman að heyra að herramanninum hafi þótt þær góðar, þær eru líka í uppáhaldi hjá 2.5 ára dóttur minni :) Já mig grunar að bollurnar hafi verið of blautar (speltið getur verið dyntótt) og þær renna svolítið út svoleiðis. Hins vegar getur líka verið að of lengi hafi liðið frá því deigið var hrært saman, þangað til það var sett í ofninn, eða að deigið hafi verið of mikið hrært en mér heyrist þú vera nokkuð vön svo líklega var um að ræða of mikinn vökva.