Kjúklingur með blaðlauk, gulrótum og grænum baunum

Þessi réttur kemur úr frábærri bók Annabel Karmel Top 100 Baby Purees. Hægt er að nota lambakjöt, fisk eða nautakjöt í staðinn fyrir kjúklinginn. Maukið má gefa yngri börnum en gefið er hér upp, allt niður í 7-9 mánaða ef börnin eru farin að borða eitthvað af t.d. kjöti eða fiski. Gæta þarf þess þó að bitarnir séu ekki of stórir fyrir yngri börnin og er best að mauka matinn fyrir þau yngstu. Gott er að miða við að 10 mánaða barn geti t.d. borðað grænar baunir heilar en hafið jafnframt í huga að börn eru að sjálfsögðu ólík.

Athugið að skammtastærðin er einungis viðmið. Sum börn þurfa meira og önnur minna. Einnig getur skipt miklu máli hvort barn er byrjað að skríða og hreyfa sig, varðandi hversu mikið það borðar.
&;

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Kjúklingur með blaðlauk, gulrótum og grænum baunum

Gerir 6-8 skammta

Innihald

 • 150 g blaðlaukur, þveginn og saxaður gróft
 • 500 gr kjúklingur (helst læri þar sem það inniheldur meira járn en hvítt kjöt)
 • 600 g gulrætur, skrældar, þvegnar og saxaðar gróft
 • 1,5 msk kókosolía (eða önnur olía) eða smjör
 • 750 ml grænmetissoð
 • 150 g frosnar, grænar baunir (enska: peas)

Aðferð

 1. Þvoið blaðlaukinn og saxið gróft.
 2. Skrælið gulræturnar, þvoið þær og saxið gróft.
 3. Fjarlægið skinnið af kjúklingnum.
 4. Hitið olíuna eða smjörið í potti og látið laukinn krauma í 2 mínutur.
 5. Bætið kjúklingnum saman við og hitið í 2 mínútur.
 6. Bætið gulrótunum saman við og hitið í 2 mínútur.
 7. Hellið grænmetissoðiðu út í pottinn og látið suðuna koma upp. Setjið lokið á og látið malla í 20 mínútur.
 8. Bætið grænu baununum út í pottinn og látið malla í 4-5 mínútur.
 9. Takið kjúklinginn upp úr og fjarlægið kjötið af beininu. Gætið þess að kjötið sé hvergi bleikt. Ef svo er þarf að sjóða það lengur. Gætið þess vandlega að engin bein séu eftir.
 10. Maukið grænmetið með töfrasprota (eða matvinnsluvél/blandara) og notið eins mikið af soðinu og ykkur finnst þurfa til að útbúa mjúkt mauk. Fyrir eldri börnin (eldri en 10 mánaða) má hafa pínulitla bita í kjötinu en fyrir yngri börnin er best að mauka matinn.

Gott að hafa í huga

 • Ég nota aðeins free range og organic kjúklingakjöt (þ.e. hamingjusama kjúklinga) og mér finnst mikilvægt að börnum sé kennt mjög fljótt hvers vegna svo er. Ég er algerlega á móti því að halda dýrum við ömurlegar aðstæður í pínulitlum búrum á vondu fæði, sterum og sýklalyfjum bara svo við getum keypt ódýrt kjúklingakjöt. Ef þið fáið ekki free range og organic kjúkling er lambakjöt besti kosturinn því lömbin fá þó í það minnsta að hlaupa um frjáls í náttúrunni og borða ferskt gras og jurtir áður en þau enda á diskum landsmanna!
 • Nota má sætar kartöflur í staðinn fyrir gulrætur.
 • Bæta má svolitlum osti saman við réttinn til tilbreytingar. Einnig er gott að setja litlar pastaskeljar út í (svo fremi sem börnin hafa ekki glúteinóþol).
 • Gott er að frysta maukið í ísmolabox. Setjið svo molana í góða frystipoka. Merkið pokana með innihaldi og dagsetningu. Í góðum frysti geymist frosinn barnamatur í nokkra mánuði.
 • Gætið þess að hita matinn alveg í gegn við endurhitun. Hitið matinn ekki oftar en einu sinni eftir að hann kemur úr frysti.
 • Ég nota einungis lífrænt ræktað hráefni í barnamat og ég gufusýð alla ávexti og allt grænmeti.