Kjúklingasumarsalat

Eins og nafnið ber með sér, þá er eiginlega skylda að borða þetta kjúklingasalat úti, á góðum sumardegi þegar sólin er alveg að fara að setjast (ok viðurkenni að það er aðeins auðveldara hérna í London heldur en heima á Íslandi, en það má alltaf reyna, tjalda yfir borðið eða eitthvað, he he). Upplagt er að nota afgang af grilluðum kjúklingi í þessa uppskrift. Salatið er frábært í nesti daginn eftir (er mér sagt....). Ef þið hafið mjólkuróþol má nota sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur

Kjúklingasumarsalat

Fyrir 2

Innihald

 • 250 g grilluð (helst) eða steikt kjúklingabringa, rifin í strimla. Skinnið ekki notað. Notið einungis „hamingjusaman kjúkling" (þ.e. free range). Ef þið eigið ekki grillaðan kjúkling steikið þá bringuna upp úr smá kókosolíu og vatni
 • 30 g ristaðar möndlur (þurrristaðar á heitri pönnu í 3-5 mínútur)
 • 1 sellerístilkur í sneiðum
 • 30 g rúsínur
 • 30 g þurrkaðar aprikósur, saxaðar smátt
 • 1 marið hvítlauksrif
 • 0,5 tsk svartur pipar
 • 0,5 tsk engifer 
 • Jöklasalat (iceberg) eða blandað salat (Lambhagasalat, eikarlauf, klettasalat o.fl.)
 • 2 vel þroskaðir tómatar, í sneiðum
 • 1 msk appelsínusafi
 • 100 ml hrein jógúrt eða AB mjólk. Einnig má nota sojajógúrt

Mangó-karrísósa

 • 2 msk mangomauk (mango chutney). Hægt er að kaupa tilbúið mangomauk en það er yfirleitt hlaðið aukaefnum og sykri
 • 1 tsk karrí
 • 2 tsk tamarísósa
 • 125 ml hrein jógúrt eða AB mjólk. Einnig má nota sojajógúrt
 • Hrærið saman og berið fram í sér skál með salatinu

Aðferð

 1. Grillið kjúklingabringuna eða steikið upp úr 1 tsk kókosolíu og vatni. Kælið og rífið í strimla.
 2. Sneiðið selleríið og tómatana.
 3. Skerið aprikósurnar í smáa bita.
 4. Merjið hvítlaukinn.
 5. Þurrristið möndlurnar á heitri pönnu (án olíu) í 3-5 mínútur eða þangað til þær taka lit.
 6. Blandið saman kjúklingi, selleríi, apríkósum, rúsínum og möndlum í stóra skál.
 7. Hrærið saman jógúrti og appelsínusafa og bætið út í ásamt engiferi og pipar. Blandið vel saman án þess að hræra.
 8. Kælið í um 30 mínútur.
 9. Setjið salatblöð og tómatsneiðar á 2 diska og síðan kjúklingasalatið þar ofan á. Ég hef stundum haft mango-karrísósu með þessu salati og það passar bara fínt.
 10. Ef þið notið mango-karrísósuna, blandið þá jógúrti, tamarisósu, mangomauki og karríi saman og kælið aðeins. Berið fram í sér skál.

Gott að hafa í huga

Ummæli um uppskriftina

Engin ummæli hafa verið rituð

Skrifa ný ummæli

Vinsamlegast athugið að reiti merkta með * þarf að fylla út.
 
Innihald þessa svæðis verður ekki sýnilegt almenningi.
Þessi spurning hér að neðan er til að varna því að spamvélar geti sett inn sjálfvirkar færslur.
Vinsamlegast leggðu saman tölurnar og skrifaðu niðurstöðurnar. T.d. fyrir einn plús þrír, skaltu skrifa 4.
sex plús þrír eru