Kiwi- og límónusafi
1. júlí, 2007
Þegar Jóhannes smakkaði þennan drykk sagði hann: „Þennan drykk væri ég til í að kaupa oft”. Svo sem gott að fá góð viðbrögð og allt það en hvað með hinar, mörg hundruð uppskriftirnar á vefnum mínum sem hann hefur þurft að smakka (og ekki boðist til að kaupa)? Hmmmmmm!!! Allavega, hvort sem hann er til sölu eða ekki er þetta ferskur, hreinsandi og nærandi drykkur, yfirfullur af C vítamíni. Best er að nota safapressu fyrir safann.
Gætið þess að mjög ung börn geta haft ofnæmi fyrir kiwifræjum svo farið varlega þegar þið gefið ungum börnum þennan safa.
Athugið að best er að nota safapressu og blandara til að útbúa þennan drykk. Ef þið eigið ekki safapressu getið þið sleppt vínberjunum og notað eingöngu hreinan eplasafa.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Kiwi- og límónusafi
Fyrir 2
Innihald
- 3 vel þroskuð kiwi, afhýdd og skorin í stóra bita
- 150 ml eplasafi (eða 1 sætt epli, þvegið og skorið í stóra bita)
- 2 lúkur græn vínber (steinalaus), þvegin (má nota 100 ml eplasafa til viðbótar í staðinn)
- Safi úr einni límónu
Aðferð
- Ef notuð er safapressa:
- Þvoið vínberin vel.
- Þvoið eplið og skerið í stóra bita. Setjið eplið og vínberin í safapressu. Farið í lið 5 og haldið áfram með uppskriftina.
- Ef notaður er blandari eingöngu:
- Afhýðið kiwiið, skerið í stóra bita og setjið í blandarann. Blandið í 2 sekúndur (fræin mega ekki maukast í sundur því þá verður drykkurinn bitur á bragðið).
- Bætið límónusafanum, vínberjasafanum (ef notaður) og eplasafanum út í. Blandið í aðrar 2 sekúndur (eða hrærið með stórri skeið).
- Hellið í glös og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Ekki skiptir máli hvort þið notið grænt eða rautt epli svo lengi sem það er sætt.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024