Jólakonfekt

Þetta konfekt er nokkuð hollt og gott jólakonfekt, fullt af próteini, hollri fitu, trefjum, C vítamíni, flóknum kolvetnum, andoxunarefnum og járni. Maður gæti í raun fengið sér mola með morgunkaffinu og hugsað með sér „namm, vítamín!”. 

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.

Hafið einnig í huga að súkkulaði/carob getur innihaldið mjólk svo skoðið innihaldið ef þið hafið mjólkurofnæmi.


Mjög líklega hollasta jólakonfektið!

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Jólakonfekt

Gerir 40-50 konfektmola

Innihald

 • 100 g cashewhnetur
 • 15 g möndlur
 • 50 g kókosmjöl
 • 250 g gráfíkjur
 • 80 g döðlur
 • 80 g rúsínur
 • 50 g puffed rice (sprengd hrísgrjón) eða hrískökur
 • 3-5 msk hreinn appelsínusafi
 • 4 msk hlynsíróp
 • 3 msk kakó
 • 2 msk kakónibbur (cacao nibs), má sleppa
 • 100 g dökkt súkkulaði, lífrænt framleitt með hrásykri (eða carob)

Aðferð

 1. Setjið möndlur, puffed rice eða hrískökur, cashewhnetur og kókos í matvinnsluvél. Malið í um 15 sekúndur eða þangað til hneturnar eru fínt saxaðar (en ekki duftkenndar). Bætið kakói út í og malið aðeins áfram. Setjið í stóra skál.
 2. Skerið stilkinn af gráfíkjunum og saxið þær gróft ásamt döðlunum. Setjið í matvinnsluvélina ásamt rúsínum, hlynsírópi og appelsínusafa. Blandið í 1 mínútu eða þangað til nokkuð vel maukað. Bætið meiri appelsínusafa ef illa gengur að mauka ávextina. Setjið í stóru skálina.
 3. Bætið kakónibbunum út í stóru skálina og hrærið öllu vel saman. Gott er að nota hrærivél og deigkrók. Ef þið eigið ekki svoleiðis er gott að nota plasthanska og hnoða deigið vel saman. Áferðin á deiginu á að vera nokkuð þétt, alls ekki blaut. Ef þið klípið blönduna á milli vísifingurs og þumalfingurs ætti deigið að haldast saman.
 4. Gott er að láta deigið sitja aðeins í kæli, betra er að móta konfektið þannig.
 5. Mótið litlar kúlur (um 14 g eða eins og jarðarber að stærð). Gott er að slétta botninn á hverri kúlu, hún stendur betur á diskinum þannig.
 6. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
 7. Notið kokteilpinna eða tannstöngla til að stinga í flata svæðið á kúlunum. Týfið toppi kúlanna ofan í brædda súkkulaðið. Veltið strax upp úr kókosmjöli, möndlum, kakói, kakónibbum eða einhverju öðru ef þið viljið.
 8. Setjið konfektið í ísskáp í svolitla stund til að súkkulaðið storkni.
 9. Hægt er að frysta molana en þeir geymast í margar vikur í lokuð íláti í kæliskáp.

Gott að hafa í huga

 • Gott er að setja rifinn börk af einni appelsínu í hluta deigsins og það passar sérlega vel með dökku appelsínusúkkulaði (frá Green & Black's eða Rapunzel).
 • Til tilbreytingar er gott að setja 0,5 tsk engifer og 0,5 tsk kanil í deigið.
 • Nota má þurrkaðar aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu) á móti döðlunum.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur stundum mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.
 • Saxa má súkkulaðið og nota inn í konfektið í staðinn fyrir að bræða það.
 • Nota má hunang (ath er ekki vegan) eða hrátt agavesíróp í stað hlynsíróps.
 • Puffed rice fæst stundum í heilsubúðum en einnig má nota puffed spelt eða hrískökur í staðinn. Athugið að spelti inniheldur glútein.
 • Ef þurrkuðu ávextirnir eru mjög þurrir er gott að saxa ávextina og láta þá liggja í appelsínusafa í um 30 mínútur.

Ummæli um uppskriftina

Sóley V.
03. des. 2014

Sæl og takk fyrir frábærar uppskriftir! Ég hef verið að skoða uppskriftir að aðeins hollari mat, kökum og konfekti og það sem mér finnst þær eiga sameiginlegt að það eru hnetur eða möndlur i næstum því öllu! Og já, eða döðlur! Getur þú bent mér á t.d. uppskrift að konfekti sem er ekki uppfyllt af sykri en er ekki með hnetur, möndlum eða döðlum?

sigrun
03. des. 2014

Sæl. Þetta yrði ákaflega erfitt í framkvæmd því þú þarft eitthvað til að líma deigið saman (þ.e. þannig að það haldist vel saman) og þá þarftu annað hvort þurrkaða ávexti + vökva eða sykur + spelti + vökva. Ég vildi að ég vissi um slíka uppskrift en mér dettur hreinlega ekkert í hug! Það að nota ekki t.d. möndlur útilokar allt með marsipani og það að útiloka döðlur + hnetur útilokar flest hollt konfekt. Að útiloka sykur þýðir að ekki er hægt að nota neina hefðbundna uppskrift. Svo það eina sem er í raun í boði er að nota aprikósur/rúsínur/gráfíkjur og þá kókosolíu/kakósmjör + kókosmjöl + kakó á móti vökva t.d. hlynsírópi eða hunangi ásamt vökva, t.d. appelsínusafa. Konfektið þyrfti þá líka að geyma í kæli því það myndi linast strax við stofuhita....en þetta eru bara pælingar svo sem!