Járnríkur sellerí-, rauðrófu- og gulrótarsafi
Þessi kemur beint af beljunni svo að segja eða réttara sagt úr bókinni Innocent smoothie recipe book: 57 1/2 recipes from our kitchen to yours og er ein af mínum uppáhalds. Þessi drykkur er bara hollusta út í eitt. Eitt svona glas á morgnana er góð byrjun á góðum degi. Rauðrófur (rauðbeður) eru fullar af járni og gulrætur innihalda A vítamín (Beta Carotene) ásamt B1, B3, B6, fólinsýrur og Kalíum (Potassium), járn og margt fleira gott fyrir okkur. Sellerí inniheldur mikið af K og C vítamíni sem hjálpar til við upptöku járnsins. Sellerí inniheldur líka efnið phalides sem er talið hjálpa til við að lækka blóðfitu og coumarins sem á að vera gagnlegt til að sporna við krabbameini. Það er svo mikið járn í drykknum að ef Drakúla væri grænmetisæta myndi hann sennilega drekka þennan safa (uppskriftin er samt ekki frá honum). Þennan safa er best að gera með safapressu þar sem erfitt er að fá hreinan sellerísafa. Annan safa í uppskriftinni er hægt að kaupa í heilsubúðum.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Járnríkur sellerí-, rauðrófu- og gulrótarsafi
Innihald
- 2 gulrætur, þvegnar og snyrtar
- 1 rauðrófa, þvegin, snyrt og skorin í nokkra bita
- 1 sellerístilkur, þveginn og snyrtur
- 1 sætt epli, þvegið og skorið í nokkra bita
Aðferð
- Þvoið og snyrtið grænmetið og eplið. Skerið í hæfilega stóra bita.
- Setjið allt í safapressuna.
- Hellið í glös og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Best er að drekka safann um leið og hann kemur úr safapressunni, þannig er hann hollastur.