Jarðarberjahristingur

Vissuð þið að til eru 600 afbrigði af jarðarberjum? Þetta var fróðleikskorn dagsins í boði CafeSigrun! Jarðarber eru full af C vítamíni og um 100 g af jarðarberjum innihalda ráðlagðan dagskammt af þessu mikilvæga vítamíni. Jarðarber innihalda einnig phenol sem er kröftugt andoxunarefni. Phenol er talið sporna gegn hjartasjúkdómum, krabbameini og bólgum í gigtarsjúklingum og einnig hafa jarðarber góð áhrif á öldrunartengd vandamál&;í augum. Sannkallaður ofur-hollustudrykkur!


Jarðarberjadrykkur, fullur af hollustu

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Jarðarberjahristingur

Fyrir 2

Innihald

  • 250 g frosin jarðarber, snyrt og þvegin
  • 1,5 vel þroskaðir bananar
  • 100 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 2 msk agavesíróp ef jarðarberin eru ekki nógu sæt

Aðferð

  1. Snyrtið og þvoið jarðarberin.
  2. Setjið frosnu jarðarberin í blandara og hellið sojamjólkinni út í. Látið jarðarberin bíða í um 2-3 mínútur (annars er hætta á að blandarinn skemmist). Blandið í um 10 sekúndur.
  3. Bætið banananum út í ásamt agavesírópinu ef þarf. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  4. Hellið í glös og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið notið fersk jarðarber má blanda nokkra ísmola með jarðarberjunum.
  • Nota má bláber eða hindber á móti jarðarberjunum.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, möndlumjólk eða haframjólk í staðinn fyrir sojamjólk.