Íslatte að hætti Freysa

Ég fékk svona íslatte fyrst á kaffihúsi sem heitir Englen í Árhúsum sumarið 2006. Setið var úti í ógnarhita í garðinum bak við kaffihúsið. Freysi vinur okkar (þá búsettur í Árhúsum) sagði rogginn að hann gæti búið til álíka gott latte heima hjá sér en ég var nú ekki svo tilbúin að trúa honum. Pressan á honum var því mikill er heim var komið. En viti menn, þetta tókst hjá stráknum! Danska mjólkin er reyndar mögnuð og ég fæ ekki sömu áferð á mjólkina í Englandi eða Íslandi. Best er að nota léttmjólk. Ég hef notað sojamjólk líka og hún er allt í lagi en hún freyðir reyndar lítið. Hrísmjólk nær ekki sömu áferð en haframjólk og möndlumjólk virkar nokkuð vel.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Íslatte að hætti Freysa

Fyrir 2

Innihald

  • Um 10 stórir ísmolar
  • 200 ml léttmjólk (sojamjólk má nota en hún freyðir ekki mikið)
  • 150-200 ml koffeinlaust kaffi (venjulegt fyrir þá sem vilja)
  • 4 msk hreint hlynsíróp
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

  1. Útbúið kaffið, hafið það frekar sterkt (setjið til hliðar).
  2. Setjið ísmolana og um 50 ml af mjólkinni  í blandara og blandið í um 5 sekúndur.
  3. Bætið afgangi af sojamjólk og vanilludropum út í og blandið á fullum hraða í heila mínútu eða þangað til mjólkurblandan er orðin silkimjúk og rjómakennd og farin að freyða vel.
  4. Bætið einum ísmola til viðbótar út í blandarann og blandið á fullum hraða í nokkrar sekúndur.
  5. Hellið mjólkinni í há glös (um tvo þriðju hluta glassins). Gætið þess að þykki hlutinn (froðan) fari líka ofan í glösin.
  6. Hellið kaffinu varlega í mjórri bunu ofan á froðuna í hvoru glasi.
  7. Bætið 2 ísmolum út í hvort glas.
  8. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Fyrir hressandi mjólkurdrykk má blanda saman 200 ml léttmjólk eða sojamjólk, 1 msk hreint hlynsíróp og fullt af ísmolum. Ísmolarnir eru blandaðir fyrst og hinu blandað saman við á mesta hraða í um 2 mínútur. Berið fram ískalt.
  • Freysi notaði upprunalega sykurlaust síróp í blönduna en ég nota hlynsíróp.