Humarsúpa
Humar er mjög próteinríkur og magur og inniheldur omega 3 fitusýrur. Hann þarf ekki að kosta mann neglur og nýra ef maður kaupir brotna skel og frekar smáan humar. Hann bragðast yfirleitt jafn vel en er ekki nægilega fallegur fyrir t.d. grillveislur en fínn í salöt og súpur. Bestu humarsúpu í heimi gerir tengdó og hún notar engan grín humar, ó nei. Humarinn sem hún notar er vandræðalega stór og fallegur, maður tímir ekki að borða hann. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að keppa við hana í humarsúpugerð he he. Það sem mér finnst sniðugt við humarsúpur er að maður sýður skelina fyrst til að útbúa soð og það finnst mér afskaplega gaman því þannig drýgir maður alla afurðina. Þessi uppskrift er afar holl því hún inniheldur engan rjóma og er meira í líkingu við soð/þunna súpu heldur en þykka rjómasúpu. Það má að sjálfsögðu þykkja hana eftir smekk. Ef þið viljið hitaeiningasnauða, fitulitla en bragðmikla súpu, þá er þessi fyrir ykkur. Athugið að aðferðin virkar mjög flókin en er það alls ekki, ég brýt bara hvert skref vel niður svo þau virka kannski mörg. Mér finnst alveg magnað að hugsa til þess að þegar afi minn heitinn var á sjó (var kokkur á skipi í 60 ár), þá var humrinum hent því hann þótti drasl!!! Við Íslendingar vorum svolítið eftir á hérna áður fyrr. Já og eitt...ég skil ekki alveg...ég skrifa alltaf sumarhúpa í staðinn fyrir humarsúpa og þurfti að breyta því örugglega hundrað sinnum í uppskriftinni...he he.
Athugið að auðvelt er að gera súpuna mjólkurlausa og má nota hrísmjólk, haframjólk, möndlumjólk eða sojamjólk í staðinn.
Meira seyði en súpa en gott engu að síður
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
Humarsúpa
Innihald
- 500 g humar í skel (má vera lítill og brotinn)
- Hálfur laukur
- 1 meðalstór gulrót
- 2 hvítlauksrif
- 1 msk og 1 tsk kókosolía
- 1 lítri vatn
- 2,5 gerlausir grænmetisteningar
- 2 msk fiskisósa (Nam Plah)
- 100 ml léttmjólk (fyrir þykkari súpu má nota hafrarjóma eða matreiðslurjóma)
- 2 msk maísmjöl (eða arrow root)
- 1 msk tómatmauk (puree)
- 0,5 tsk karrí
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Afþýðið humarinn ef frosinn.
- Klippið í bakið á skelinni með skærum. Takið humarinn úr skelinni, skolið og sigtið.
- Hreinsið svörtu línuna úr humrinum (garnirnar oj) með litlum hníf.
- Setjið humarinn á disk og geymið í ísskápnum. Ef humarinn er mjög stór er gott að skera hann í minni bita (miða við munnbita).
- Skolið skeljarnar, sigtið og setjið í skál.
- Afhýðið hvítlaukinn, laukinn og gulrótina og saxið gróft.
- Setjið 1 tsk kókosolíu og svolítið vatn í stóran súpupott.
- Setjið skeljarnar út í og hitið í 10 mínútur.
- Bætið saxaða hvítlauknum, lauknum og gulrótinni út í og hitið í 2-3 mínútur.
- Bætið 1 lítra af vatni út í ásamt grænmetisteningunum, tómatmaukinu, karríinu og fiskisósunni.
- Setjið lokið yfir pottinn og látið malla við vægan hita í klukkutíma (en gjarnan lengur).
- Hrærið vel saman í skál, 1 msk af kókosolíu og maísmjölinu. Bætið mjólkinni smám saman út í.
- Þegar soðið hefur mallað í a.m.k. klukkutíma skuluð þið sigta það í stóra skál. Fleygja má grænmetinu og skeljunum.
- Setjið soðið aftur í pottinn og látið suðuna koma upp.
- Lækkið undir súpunni og hellið mjólkurblöndunni út í.
- Sumum finnst gott að setja svolitla slettu af hafrarjóma (eða matreiðslurjóma) út í súpuna og skal það þá gert hér.
- Saltið súpuna eftir smekk (mér finnst gott að hafa hana svolítið salta).
- 10-15 mínútum áður en bera á súpuna fram skuluð þið bæta humrinum út í. Hann ætti ekki að sjóða heldur aðeins hitna í gegn. Hann stífnar og verður hvítur þegar hann er tilbúinn.
- Berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Gott er að bera súpuna fram með nýbökuðu snittubrauði.
- Hægt er að útbúa soðið með góðum fyrirvara og frysta. Eins líka ef þið þekkið einhvern sem er að henda humarskel er um að gera að fá að eiga hana, frysta og sjóða síðan niður!
- Til að þykkja súpuna má setja smávegis af hafrarjóma eða matreiðslurjóma út í.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
Ummæli um uppskriftina
15. jan. 2011
Ég eldaði þessa yndislegu súpu í vikunni. (Notaði matreiðslurjóma;) Dásamleg.
Yndisleg vefsíða. Falleg og gagnleg. Ég lít oft hingað inn til að fá hugmyndir.
Takk fyrir mig!