Hrísgrjónasalat

Þessi réttur er stútfullur af hollustu. Í honum eru paprikur, avacado, hýðishrísgrjón, tómatar og fleira. Það er hægt að borða þennan rétt einan sér, eða hafa hann sem meðlæti með grænmetisborgurum eða baunakássu. Einnig er gott að borða þennan rétt með thailenskum mat þar sem í honum er límóna, rauðlaukur og coriander, mikið notað hráefni í thailenskri matargerð. Ég geri stundum þennan rétt stóran svo ég geti haft hann í nestisboxið daginn eftir. Einnig má frysta réttinn.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Hrísgrjónasalat

Fyrir 4-5 sem meðlæti

Innihald

  • 300 g (fyrir suðu) hýðishrísgrjón eða bygg (bankabygg)
  • 1 gul paprika, söxuð smátt
  • 1 rauð paprika, söxuð smátt
  • 380 g tómatar, fræhreinsaðir og saxaðir smátt
  • 60 g radísur, saxaðar smátt
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 avocado, saxað smátt
  • 200 g maískorn, frosið eða niðursoðið (án viðbætts sykurs)
  • 80 ml límónusafi
  • 1 tsk ólífuolía
  • Ein lúka fínt söxuð corianderlauf

Aðferð

  1. Sjóðið hýðishrígrjónin eða byggið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
  2. Skerið paprikurnar langsum og fræhreinsið. Saxið þær smátt.
  3. Skerið tómatana í helminga, fræhreinsið og saxið smátt.
  4. Saxið radísurnar smátt eða sneiðið þunnt.
  5. Afhýðið rauðlaukinn og saxið smátt.
  6. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og skerið smátt.
  7. Blandið öllu saman í skál ásamt maískorninu.
  8. Saxið corianderlaufin smátt.
  9. Hellið límónusafanum út í ásamt ólífuolíunni og söxuðu corianderlaufunum.
  10. Hrærið varlega í öllu og látið standa í ísskáp í a.m.k. 1 klukkutíma.
  11. Takið réttinn út um 30 mínútur áður en á að borða hann.

Gott að hafa í huga

  • Nota má ferskan maís (auðvitað lang best) og ekki síst er gott að nota grillaðan.