Hressandi morgundrykkur með sætri kartöflu
Þessi drykkur kemur manni af stað á morgnana. Það er smá leyniinnihald í uppskriftinni en það er sæt kartafla! Það er gaman að bjóða gestum upp á þennan drykk og leyfa þeim að giska á innihaldið. Ég get lofað ykkur að engum dettur í hug sæt kartafla!  Sæt kartafla er það grænmeti sem hvað oftast gleymist þegar talað er um ofurhollt grænmeti. Hún er stútfull af andoxunarefnum og er talin hafa góð áhrif á blóðsykurinn (og jafnvel geta lækkað insúlínmótstöðu hjá sykursjúkum). Það er mikið af A og C vítamíni í sætum kartöflum ásamt fjölmörgum öðrum vítamínum og öðru góðu fyrir okkur.
Nauðsynlegt er að nota safapressu fyrir þessa uppskrift. Ég skræli kartöfluna en það á ekki að vera nauðsynlegt fyrir safapressur. Mér finnst það bara betra, persónulega.
Einstaklega hressandi og kemur á óvart
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Hressandi morgundrykkur með sætri kartöflu
Innihald
- Safi af einni nýkreistri appelsínu (einnig má nota hreinan appelsínusafa, um 50-75 ml)
- 1 gulrót, þvegin
- 1 sæt kartafla, skræld, þvegin og skorin í 4 báta
- 1 epli, þvegið og skorið í 4 báta
Aðferð
- Þvoið kartöfluna og skrælið og skerið í 4 báta.
- Þvoið gulrótina og skerið endann af.
- Þvoið eplið og skerið í 4 báta.
- Setjið kartöfluna, gulrótina og eplið í safapressu.
- Kreistið appelsínusafann (ef þið notið heila appelsínu).
- Hrærið appelsínusafanum saman við.
- Berið fram í háum glösum með ísmolum.
Gott að hafa í huga
- Gott er að nota peru á móti eplinu.
- Gætið þess að nota hart og safaríkt epli. Ekki er gott að nota mjúk né of súr epli.
- Nýpressaðan safa borgar sig að drekka strax og hann er tilbúinn því annars nær hann að oxast.