Hreinsandi sítrusdrykkur

Þessi drykkur minnti mig alveg svakalega á Afríku þegar ég var að smakka hann til og sérstaklega á Kenya en þar eru appelsínur eilítið súrari en þessar sem við eigum að venjast á Íslandi. Þær sem við fáum á Íslandi koma nefnilega yfirleitt frá Spáni eða Bandaríkjunum. Ég man í fyrsta skipti sem ég sá appelsínur í Kenya. Þær eru aðeins stærri en límónur og eiturgrænar að lit (en reyndar gular að innan sem ég vissi ekki þá). Í fyrsta skipti sem við komum þangað var ég búin að velta því fyrir mér alveg svakalega oft hvers vegna Kenyabúar borðuðu svona oft límónur. Mér fannst það beinlínis stórfurðulegt. Það var ekki fyrr en í næsta skipti sem ég fór þangað að ég fór að spyrjast fyrir um þetta. Ég spurði einn Kenyabúa hvers vegna þessu sætti. Hann horfði á mig eins og ég væri eitthvað ruuuugluð. Já en þetta eru appelsínur!!! Ég sagði að það gæti ekki verið? Þær væru appelsínugular? Hann svaraði á móti að það hlyti að vera eitthvað að appelsínunum okkar þar sem þær væru appelsínugular..kannski væru þær skemmdar? Þetta sýndi glögglega hversu fastheldin við erum á ýmislegt í lífi okkar, hvort sem við búum í Kenya eða á Íslandi.

Í fyrsta skipti sem ég smakkaði appelsínu í Kenya vorum við að sigla á Indlandshafi, í gamalli tréskútu sem notuð hafði verið fyrir krydd, þræla og ýmsan varning milli Mombasa og Zanzibar. Um borð var matur sem við borðuðum með bestu lyst enda orðin svöng. Í eftirmat voru… þessar límónur (sem ég nú vissi að voru appelsínur) og ég borðaði þær auðvitað líka. Þær voru sérlega gómsætar en aðeins súrari en okkar (ekki óþroskaðar súrar heldur svona sterksætsúrar) sem pössuðu vel þarna eftir matinn. Margir þeir sem kafa í Indlandshafi, við Kenya fá svona appelsínubita þegar upp á yfirborð er komið því appelsínubátarnir hreinsa munninn og eru frískandi eftir gúmmíbragðið! Þetta var ég sem sagt að hugsa um á meðan ég bjó til drykkinn á köldum vetrardegi á Íslandi. Hann er einstaklega hressandi og hreinsandi og sprengfullur af C vítamíni. Engiferið er einnig gott fyrir meltinguna og við flökurleika. Ef þið viljið meira engiferbragð má rífa engiferið á rifjárni og setja út í drykkinn.

Til að útbúa þennan drykk þarf safapressu eða hreinan gulrótarsafa.


Hreinsandi og nærandi drykkur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan
 • Hráfæði

Hreinsandi sítrusdrykkur

Fyrir 2

Innihald

 • Safi úr 2-3 appelsínum (eða 250 ml hreinn appelsínusafi)
 • Safi úr 1 límónu
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 2 gulrætur, skrældar og þvegnar (eða 100 ml gulrótarsafi)
 • 0,5 sm bútur ferskt engifer, afhýtt

Aðferð

 1. Afhýðið og þvoið gulrótina og setjið hana í gegnum safapressuna. Hellið í könnu.
 2. Sumar safapressur þola appelsínur og þið getið sett appelsínurnar í gegn eftir að þið eruð búin að skræla þær. Annars getið þið notað sítruspressu (ég á bara svona litla úr plasti sem er með lítilli skál undir, dugar mjög vel). Hellið í könnuna.
 3. Gerið það sama með límónuna.
 4. Kreistið safann úr sítrónunni út í könnuna.
 5. Afhýðið engiferið og skerið í tvo bita.
 6. Látið engiferið liggja í könnuni í um 30 mínútur. Einnig má setja engiferið í safapressuna ef þið viljið sterkari engiferbragð, eða ef þið eigið ekki safapressu getið þið afhýtt engiferið og rifið það á rifjárni þannig að safinn leki ofan í blandarann.
 7. Fjarlægið engiferið og hrærið vel í drykknum.
 8. Berið fram strax.

Ummæli um uppskriftina

Bjarki
28. ágú. 2011

Kaera Sigrun,

Uppskriftin "Hreinsandi sítrusdrykkur" hljomar mjog vel en eg var ad velta einu fyrir mer, tegar tu segir ad hann se "hreinsandi", attu ta vid ad hann valdi nidurgangi?

sigrun
28. ágú. 2011

Nei hann veldur ekki niðurgangi heldur eru 'lifandi' ensími í sítrusávöxtum sem eiga að hjálpa til við að 'skola út' eiturefnum sem safnast fyrir í frumum líkamans sem og eiga þeir að hjálpa til við að brjóta niður fitu. Það er ekki mikið af trefjum í drykknum því hann er mest megnis safi (trefjarnar verða eftir við 'djúsun') og því veldur hann ekki niðurgangi þó hann geti hjálpað meltingunni (frekar en að letja hana). Vona að þetta hafi svarað spurningunni.

Bjarki
31. ágú. 2011

Sæl Sigrún og takk fyrir svarið. Ætlunin var nú ekki að vera með einhver leiðindi en ég finn mig samt knúinn til að leiðrétta þig.

Mér finnst nýkreistur ávaxtasafi góður og frískandi og ég er viss um ad uppskriftirnar á þessari heimasíðu hafi hvatt marga til þess að borða (og drekka!) hollari fæðu. Allt saman mjög jákvætt. Mér leiðist þess vegna sérstaklega að þú skulir finna fyrir þeirri þörf að réttlæta þína vinnu og þinn lífsstíl með gerfivísindum. Það er vel þekkt og almennt samþykkt að prótein (þ.m.t. ensím) sem við innbyrðum eru snögglega brotin niður í maganum. Vinsæl mótrök við þessu eru að niðurbrot ensíma taki nokkurn tíma og að ensímin séu virk á meðan. Þetta er einnig rangt því sýrustig magans er gríðarlega lágt og flest ensím óvirkjast um leið og þau koma ofan í magann. Ennfremur, þú nefnir afeitrandi áhrif lifandi (virkra) ensíma á frumur líkamans og fituniðurbrot. Þessi setning er einnig röng að því leyti að prótein úr fæðunni eru ekki tekin upp í heilu lagi af frumum líkamans og því er ómögulegt fyrir virkni ensíma, útaf fyrir sig, sem neytt er að hafa ofangreind áhrif. Hvort að neysla nýkreists ávaxtasafa hafi áhrif á fituniðurbrot eða (óskilgreind) ´´afeitrandi´´ áfrif er annað og flóknara mál en eitt er víst, það hefur ekkert með virkni þeirra ensíma sem drykkurinn inniheldur að gera. Rangar fullyrðingar sem þessar breyta einhverju sem er jákvætt (og bragðgott!) yfir í skottulækningar sem er í fyrsta lagi óþarfi og í versta falli jafnvel hættulegt.

Gerfivísindi eru vond vísindi og tilvitnanir í þau þjóna einungis þeim tilgangi að gera, oft fullkomlega ágæta, hluti tortryggilega.

Ég er að hugsa um að búa mér til ´Hressandi´ sítrusdrykk í kvöld...

sigrun
31. ágú. 2011

Taktu vel eftir orðalaginu hjá mér.... ég segi „eiga að hjálpa til við..” ekki „hjálpa til við”. Það er mikill munur þar á. Ég er ekki að verja né réttlæta lífstíl minn enda þarf ég þess ekki, fólk getur myndað sér sínar skoðanir á hlutunum og kosið að velja annan vettvang heldur en mína vefsíðu.

Það er gott að fá innlegg „sérfræðinga” (reyndar eru skiptar skoðanir um akkúrat það sem þú skrifar) en ég velti fyrir mér einu. Hvers vegna ég? Nú hlýtur að þurfa að leiðrétta alla þá djússtaði/veitingastaði/booztbari sem selja drykki svipaða mínum, alla höfunda uppskriftabóka sem birta viðlíka uppskriftir og alla þá sem birta þær á vefsíðum sínum. Þú átt mikið verk fyrir höndum og eins gott að hafa hressandi drykk sér við hönd.

P.s. „Gervi” sbr. „Gervivísindi” er ekki skrifað með „f” heldur „v”.