Hnetusteik

Þessi uppskrift kemur úr bók sem ég á sem heitir Green World Cookbook: Recipes from Demuths Restaurant og er uppskriftabók frá samnefndum grænmetisstað í Bath, Englandi. Við fórum á þennan stað eitt sinn og fengum okkur að borða og það var alveg meiriháttar. Þegar við vorum búin að borða keypti ég bókina sem var til sölu á staðnum. Mæli sterklega með Demuths ef þið eruð á ferðinni og viljið frábæran grænmetismat. Best er að panta borð þar sem er yfirleitt uppbókað. Þessi hnetusteik er frábær á jólaborðið eða bara sem hollur málsverður þegar maður vill gera vel við sig. Uppskriftin virkar flókin en er það í raun ekki, það er bara langur innihaldslisti og stór hluti hans krydd sem maður þarf bara að hræra saman. Gera má hnetusteikina með góðum fyrirvara og frysta. Einnig finnst mér gott að gera nokkrar í einu og eiga í frystinum. Hnetusteikin er líka frábær í nestisboxið og er góð jafnt köld sem heit.

Athugið að þið þurfið stórt brauðform (sem tekur um 1 kg) til að baka hnetusteikina í. Einnig þurfið þið matvinnsluvél eða blandara til að mala hneturnar í.

Hnetusteikin er mjólkurlaus og eggjalaus og hentar fyrir þá sem eru vegan. Ef þið hafið glúteinofnæmi eða glúteinóþol má nota 100 g soðin hýðishrísgrjón í staðinn fyrir haframjöl.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Hnetusteik

Gerir 1 hnetusteik

Innihald

  • 100 g grænar linsubaunir
  • 2 lárviðarlauf
  • 500 ml vatn
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 50 g malaðar heslihnetur + 25 g auka fyrir raspið
  • 50 g malaðar cashewhnetur + 25 g auka fyrir raspið
  • 50 g sólblómafræ
  • 50 g graskersfræ
  • 1 stór rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 200 g gulrætur
  • 200 g kúrbítur
  • 2 msk kókosolía
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/2 tsk chili pipar
  • 1/2 tsk turmeric
  • 100 g haframjöl
  • 2 msk tamarísósa
  • 1 msk tómatmauk
  • 1 msk fersk steinselja
  • Smá klípa salt (Himalaya)
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Skolið grænu linsubaunirnar og setjið þær í lítinn pott ásamt árviðarlaufunum, vatninu og grænmetisteningunum. Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að krauma þangað til baunirnar eru orðnar mjúkar (30-40 mínútur). Fjarlægið lárviðarlaufin.
  2. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu á fullum hita í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið lausa hýðinu af með fingrunum.
  3. Setjið cashewhneturnar og heslihneturnar (bæði fyrir steikina og raspið) í matvinnsluvél og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til hneturnar eru orðnar smátt hakkaðar en ekki maukaðar.
  4. Hitið pönnu (án olíu) og setjið sólblóma-, og graskersfræin á pönnuna. Hitið í 5-7 mínútur eða þangað til fræin eru farin að ilma. Hrærið fræjum og hnetum saman og setjið til hliðar.
  5. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  6. Saxið einnig steinseljuna og setjið til hliðar.
  7. Skrælið gulrætur og rífið á rifjárni. Rífið kúrbítinn einnig á rifjárni.
  8. Hitið kókosolíu í stórum potti og steikið laukinn þangað til hann er orðinn mjúkur. Bætið vatni við ef þarf meiri vökva. Bætið hvítlauknum við og hitið í nokkrar mínútur.
  9. Hrærið saman kryddunum þ.e. engiferi, chili og turmeric og bætið út í. Hrærið vel.
  10. Bætið nú gulrótunum og kúrbítnum saman við og hitið í 5 mínútur. Hrærið af og til.
  11. Hellið vökvanum af linsubaununum (ef einhver er) og bætið út í pottinn ásamt haframjölinu, tamarísósunni og tómatmaukinu.
  12. Setjið um tvo þriðju af hnetu- og fræblöndunni út í pottinn. Saltið og piprið og hrærið vel í öllu.
  13. Klæðið stórt brauðform (sem tekur um 1 kg) með bökunarpappír, dreifið fræ- og hnetublönduna sem þið tóku frá, í botninn.
  14. Setjið allt innihaldið úr pottinum í formið og þrýstið mjög vel niður. Setjið álpappír yfir formið og bakið við 180°C í 40-45 mínútur.
  15. Fjarlægið álpappírinn og bakið í 10 mínútur í viðbót.
  16. Kælið í 10 mínútur í forminu. Hvolfið á stóran disk og dreifið söxuðu steinseljunni yfir hnetusteikina.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bera fram með hnetusteikinni hnetusósuna frá Uganda, gott salat og bygg eða hýðishrísgrjón.
  • Ef þið hafið glúteinóþol má nota 100 g soðin hýðishrísgrjón í staðinn fyrir haframjöl.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Ef þið eigið ferskan chili pipar og ferskt engifer er upplagt að nota það í staðinn fyrir þurrkaða kryddið.

Ummæli um uppskriftina

Lára B
15. mar. 2017

fyrir hvað marga er þessi hnetusteik?

sigrun
15. mar. 2017

Það fer alveg eftir því hverjir eru í mat :) Hún ætti að duga vel fyrir 5-6 matgranna fullorðna eða 3-4 fullorðna sem borða ríflega þ.e. þá geri ég ráð fyrir í báðum tilvikum að meðlæti sé með t.d. salat, sósa o.fl.