Hnetusmjörskökur
Nú hugsið þið örugglega..... las ég rétt? Hnetusmjörskökur? Jú þið lásuð rétt. Ég hef notað hnetusmjör í mörg ár og margir hvá við. Hef ekki notað það á hverjum degi auðvitað og ekki í miklu magni því þá hefði ég endað eins og Elvis Prestley..eða verri en ég nota það reglulega í drykki (smoothies), á sólblómabrauð, í bakstur o.fl. Þið getið breytt nafninu í Hnetukökur ef samviskan er að þjaka ykkur! Ef við hins vegar skoðum dæmið aðeins og spáum í fitumagnið...þá inniheldur smjör tvöfalt meiri fitu en hnetusmjör svo maður er að spara hellings fitu og hitaeiningar með því að nota hnetusmjör í stað venjulegs smjörs (fyrst maður er að borða smákökur á annað borð). Ég nota að sjálfsögðu lífrænt framleitt hnetusmjör, án aukaefna, bragðefna, sykurs eða viðbættrar fitu. Einnig hef ég notað mitt eigið hnetusmjör. Málið er að jarðhnetur eru sérlega hollar, í litlu magni. Þær innihalda einómettaðar fitusýrir sem stuðla að heilbrigðu hjarta. Jarðhnetur innihalda einnig mangan sem er snefilefni, B3, fólinsýru og eru að auki auðvitað próteinríkar. Rúsínan í pylsuendanum er að jarðhnetur innihalda líka mikið af andoxunarefnum (meira en epli, rauðrófur og gulrætur)! Þessar smákökur eru líklega þær kökur á vefnum mínum sem innihalda stystu innihaldslýsinguna eða aðeins þrjú hráefni! Ég notaði milligróft hnetusmjör en það má nota gróft á móti mjúku eða einungis mjúkt (fínmalaðar hnetur). Jarðhnetur eru skyldar baunum frekar en hnetum og þar er nafnið komið, Pea-nuts. Þær byrja að vaxa sem blóm en verða svo þungar að þær enda ofan í jörðinni og klára vöxtinn þar. Já og var ég búin að segja ykkur að þessar kökur eru algjört sælgæti og afar bragðmildar svo það má t.d. krydda með kanil ef sá gállinn er á ykkur!
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Vegan
Hnetusmjörskökur
Innihald
- 250 ml hnetusmjör án viðbætts sykurs, mjúkt eða milligróft
- 130 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 1 egg
Aðferð
- Hrærið saman eggi, rapadura hrásykri og hnetusmjöri. Hrærið þangað til allt er kekkjalaust og mjúkt. Gott er að nota handhrærivél en ekki nauðsynlegt.
- Hnoðið deigið lítillega.
- Mótið litlar kúlur og setjið þær á bökunarplötu með bökunarpappír undir.
- Ýtið létt ofan á hverja kúlu með gaffli (gott að bleyta hann á milli).
- Bakið við 200°C í 10-12 mínútur eða þangað til kökurnar eru farnar að taka lit.
- Kökurnar eru MJÖG linar þegar þær koma beint úr ofninum en harðna þegar þær kólna og verða þá stökkar.
Gott að hafa í huga
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Mikilvægt er að nota lífrænt framleitt hnetusmjör án viðbætts sykurs. Þau hnetusmjör sem fást í matvöruverslunum (fyrir utan þessi í heilsuhillunum) eru eiginlega viðbjóðsleg og full af aukaefnum, bragðefnum, sykri og rotvarnarefnum. Uppáhalds hnetusmjörið mitt er frá Whole Earth og það fæst í flestum heilsubúðum. Best er að nota mjúka hnetusmjörið frá þeim.
Ummæli um uppskriftina
18. des. 2010
Þessar hnetusmjörskökur eru alveg virkilega góðar og eru ekki síðri en uppskriftin sem ég var vön að nota.
18. des. 2010
Gaman að heyra Jórunn :)
08. júl. 2011
Sæl, má nota Xylitol í staðinn fyrir hrásykurinn?
08. júl. 2011
Já það ætti alveg að vera hægt. Hugsa að það sé nóg að nota 100 g (eða 110 g fyrir mjög sætar kökur) eða eftir smekk þar sem Xylitolið er jú sætara en hrásykurinn.
Kv.
Sigrún
14. des. 2013
Sæl, myndi ganga að nota tahini í stað hnetusmjörs?
Væri þá kannski betra að bæta öðru við líka?
15. des. 2013
Sæl María. Jú þú getur algjörlega notað tahini. Þú gætir bætt við smátt söxuðu súkkulaði og minnkað aðeins sykurinn í staðinn. Ef þér þykir tahini gott, ættirðu kannski að íhuga þessar hér smákökur líka: Hlynsíróps- og sesamsmjörssmákökur