Hlynsíróps- og vanillusmákökur

Þessar smákökur eru mjög jólalegar og góðar og það er nokkuð afgerandi vanillubragð af þeim sem mér finnst einstaklega gott. Ég nota líka heila vanillustöng en þið getið minnkað magnið ef ykkur finnst það betra eða þið getið líka notað einungis vanilludropa. Ég átti nefnilega enn þá vanillustangir frá því ég var á Zanzibar forðum daga...betri vanillu fær maður ekki. Þið getið þó auðvitað notað hvaða vanillustangir sem er. Ég nota hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í kökurnar en það passar sérlega vel við vanillubragðið. Þessar á ég eftir að baka oft fyrir jólin í framtíðinni. Athugið að nota einungis hreint, lífrænt hlynsíróp (ekki með gervibragði eða litarefnum eða neinu slíku).


Vanillusmákökur, svo góðar

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Hlynsíróps- og vanillusmákökur

Gerir 25-30 smákökur

Innihald

  • 130 g spelti
  • 0,25 tsk matarsódi
  • Smá klípa kanill
  • Smá klípa engifer
  • Smá klípa múskat (enska: nutmeg)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 60 ml hlynsíróp
  • 1 eggjahvíta
  • 4 msk kókosolía
  • 2 msk rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 0,5 tsk vanilludropar úr heilsubúð (má sleppa)
  • 1 vanillustöng

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál; spelti, matarsóda, kanil, engifer, múskat og salt. Hrærið vel.
  2. Í aðra skál skuluð þið blanda saman, eggjahvítu, kókosolíu, hlynsírópi, vanilludropum og rapadura hrásykri. Hrærið vel saman.
  3. Skerið vanillustöngina eftir endilöngu og skafið fræin (með oddi á litlum hnífi) ofan í hlynsírópsblönduna. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
  4. Hnoðið deigið vel og geymið í ísskápnum í klukkutíma. Ef deigið er mjög klístrað má dreifa spelti utan um deigið svo það festist ekki við.
  5. Skiptið deiginu í nokkra búta og fletjið hvern bút með kökukefli eða stórri glerflösku.
  6. Skerið út kökur sem eru um 5.5 sm í þvermál.
  7. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og dreifið kökunum á plötuna.
  8. Bakið við 180°C í um 10-12 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að saxa eina lúku af valhnetum afar smátt og setja í deigið.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Þessar kökur haldast nokkuð stökkar í loftþéttu íláti en eftir um viku fara þær að mýkjast aðeins.