Heslihnetusmákökur með sultutoppi

Þessar eru nokkuð fljótlegar og auðveldar í undirbúningi. Ekki sakar að fá smá hjálp frá litlum fingrum til að útbúa holu í hverja smáköku þar sem sultan fer ofan í. Ég nota hindberjasultu en nota má hvaða sultu sem er eins og t.d., bláberja-, aprikósu-, jarðarberja-, eða blandaða sultu. Athugið að sultan þarf samt að vera frekar stíf. Hún á að sjálfsögðu að vera án viðbætts sykurs og án allra aukaefna. Ég læt kökurnar sjálfar vera ókryddaðar en það er allt í lagi að setja t.d. kanil út í deigið ef maður notar t.d. bláberjasultu. Vanilla er líka afskaplega ljúffeng viðbót í deigið. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað kökurnar geymast lengi því þær klárast alltaf á mettíma. Athugið þó að sultan mun mýkja upp smákökurnar eftir svolítinn tíma svo þær eru bestar tiltölulega nýjar. Athugið einnig að ef þið komist í heslihnetumjöl (hazelnut flour) þurfið þið ekki að rista og mala hneturnar en ég hef ekki séð það á Íslandi svo ég læt leiðbeiningar fylgja með miðað við að þið finnið ekki slíkt mjöl.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að mala hneturnar.


Svolítið ljótar en góðar eru þær!

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Heslihnetusmákökur með sultutoppi

Gerir 24 smákökur

Innihald

 • 120 g spelti
 • 50 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 50 g heslihnetur (eða heslihnetumjöl), þurrristaðar og afhýddar
 • 5 msk kókosolía
 • 3-4 msk sulta (t.d. hindberjasulta), án viðbætts sykurs
 • 2 msk agavesíróp
 • Nokkrar matskeiðar vatn (ef þarf)

Aðferð

 1. Byrjið á því að rista hneturnar á mjög heitri pönnu (án olíu) í um 10 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna af. Nuddið hýðinu af og kælið hneturnar.
 2. Setjið hneturnar í blandara og malið þær í 20 sekúndur eða þangað til mjög fínt malaðar (eins og gróft mjöl).
 3. Í stóra skál skuluð þið blanda saman spelti, heslihnetumjöli og rapadura hrásykri.
 4. Í annarri skál skuluð þið blanda saman kókosolíu og agavesírópi. Hellið út í stóru skálina og hrærið mjög vel.
 5. Ef deigið er þurrt/molnar of mikið bætið þá nokkrum matskeiðum af vatni út í deigið þangað til hægt er að hnoða það vel saman. Það verður svolítið sprungið en bætið þá aðeins við af vatni til að mýkja deigið.
 6. Mótið deigið í kúlur (um 1 tsk af deigi fyrir hverja kúlu).
 7. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið kúlurnar á bökunarpappírinn og þrýstið með flötum lófa ofan á hverja svo úr verði flöt smákaka.
 8. Þrýstið með þumalfingri (eða vísifingri) varlega ofan í hverja köku svo hola myndist. Athugið að þær munu springa svolítið út frá holunni en svo lengi sem þær brotna ekki í tvennt þá er það allt í lagi.
 9. Bakið við 180°C í 12-15 mínútur.
 10. Takið kökurnar úr ofninum og kælið í 5 mínútur. Ef holurnar hverfa (gerist stundum) skuluð þið ýta aftur ofan í þær núna (á meðan þær eru mjúkar). Ýtið frekar fast svo að holan haldi sér.
 11. Þegar kökurnar eru orðnar kaldar skuluð þið setja um 1/2 tsk af sultu ofan á hverja köku, ofan í holuna.

Gott að hafa í huga

 • Nota má möndlur í staðinn fyrir heslihnetur og er þá gott að setja 0,5 tsk af möndludropum í deigið.
 • Nota má alls kyns sultur (nema mér finnst rabarbarasulta ekki passa sérlega vel við).
 • Rapadura hrásykur fæst í heilsubúðum en nota má annan hrásykur.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.

Ummæli um uppskriftina

Nöddi
31. júl. 2011

Það er hægt að fá hezlihnetu mjöl í Yggdrasil :)

sigrun
01. ágú. 2011

Ok gott að vita, takk :)

Ása
18. okt. 2012

Sæl og takk fyrir flotta síðu!
Ég prófaði að baka heslihnetufingraförin en með möndlum. Þær eru æðislegar! Ég prófaði bæði að baka sultuna með og svo líka að setja hana á eftir bakstur. Ég held að ég baki hana með næst á öllum þar sem þá er hægt að henda þeim í krukku án þess að sultan fari út um allt. :-) Fer kannski eftir sultunni en ég get ímyndað mér að maður þurfi kannski að passa að sultan ofbakist ekki um of og verði illa hörð.
Kærar þakkir og bestu kveðjur!

sigrun
18. okt. 2012

Já möndlur virka líka vel :) Og jú maður þarf að passa að sultan þorni ekki en í staðinn, eins og þú segir, getur maður geymt kökurnar lengur. Þær klárast alltaf svo fljótt hjá mér að það tekur því ekki að reyna að geyma þær lengur en 1-2 daga og þá geymi ég þær í einfaldri röð (ekki staflað) í stóru nestisboxi :)