Heit bláberja- og vanillusósa
23. ágúst, 2009
Dásemdarsósa sem er (ég get svo svarið það) góð út á allt, hvort sem það er ís, í drykki (smoothie), yfir kökur, í jógúrt eða bara ein og sér upp úr pottinum. Sósuna má bera fram kalda líka, þrátt fyrir nafnið. Hún er algjörlega meiriháttar blönduð út í AB mjólk og einnig má nota hana í bláberjaostakökuna góðu. Bláber eru full af andoxunarefnum og járni ásamt trefjum. Þessi djúpi, blái litur er einmitt það sem gerir bláber svona holl en í honum leynast andoxunarefnin. Nota má frosin bláber í sósuna og sósuna má einnig frysta og hita upp síðar.
Bláberjasósa, sprengfull af hollustu
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Heit bláberja- og vanillusósa
Gerir um 250 ml af sósu
Innihald
- 200 g bláber, fersk eða frosin
- 1 msk hlynsíróp
- 4 dropar stevia án bragðefna (eða 1 msk hlynsíróp til viðbótar)
- 1 vanillustöng
- 1 tsk sítrónusafi
- 50 ml eplasafi eða annar hreinn ávaxtasafi
Aðferð
- Setjið bláber, hlynsíróp, stevia, sítrónusafa og eplasafa í lítinn pott. Látið suðuna koma upp og leyfið þessu öllu að malla í nokkrar mínútur.
- Skerið vanillustöngina eftir endilöngu og skafið vanillufræin úr stönginni með oddinum á litlum hnífi. Hrærið vel. Leyfið stönglinum svo að sjóða með bláberjunum. Merjið berin aðeins með litlum gaffli og hrærið vel. Látið sósuna malla í 10 mínútur.
- Fjarlægið vanillustöngina.
- Berið sósuna fram heita með t.d. heitum bökum og kökum, ís o.fl.
Gott að hafa í huga
- Nota má hunang í stað hlynsíróps (ef þið eruð ekki vegan)
- Sósan geymist í meira en viku í ísskápnum.
- Sósuna má frysta og hita upp síðar.
- Þrátt fyrir nafnið má bera sósuna fram kalda.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
19. ágú. 2012
rosalega góð þessi
20. ágú. 2012
Gott að heyra Drífa :)
12. apr. 2017
Þessi er algjört meistaraverk.. ég átti ekki vanellustöng en notaði Bourbon-vanilla fra Naturata og átti heldur ekki appelsinusafa en notaði Heilsusafa frá Floridana og lemon safa...þetta virkaði allt fint...en ég mun prufa uppskriftina eins og hún er seinna...
12. apr. 2017
Meistaraverk já.....það er ekkert annað :) Ég hef líka notað Bourbon vanilluna og hún passar mjög vel hér. Þín útgáfa er held ég ekki síðri heldur en mín útgáfa...svona í hreinskilni sagt :)