Haustsúpa með kartöflum og kjúklingabaunum

Þessi súpa lætur lítið yfir sér og virkar ekki svo spennandi á blaði en er bara ofsalega fín, og ekki síst ef þið eigið uppskeru úr matjurtargarðinum að hausti til! Ef þið eruð ekki svo heppin er bara hægt að skreppa í búðina og kaupa gott, lífrænt ræktað grænmeti. Súpan sjálf er holl og góð enda tómatar, kjúklingabaunir, gulrætur og margt fleira í henni. Sem sagt súpa full af vítamínum, trefjum og andoxunarefnum og gerir alla hrausta og spræka. Súpan hentar þeim sem hafa mjólkuróþol og glúteinóþol og hentar einnig þeim sem eru vegan. Hún er líka ódýr og saðsöm.

Rautt karrímauk (thailenskt) er hægt að fá í flestum heilsubúðum sem og stærri matvöruverslunum. Gætið þess bara að sé ekki msg (monosodium glutamate, E-600 efni eða sykur í innihaldinu. Kaupið helst lífrænt framleitt mauk. Athugið að þau geta verið afar bragðsterk og því getur þurft að sleppa því séuð þið að gefa börnum súpuna. Ef þið hafið ofnæmi fyrir rækjum eða eruð vegan, þá geta karrímauk í sumum tilvikum innihaldið rækjumauk. Lesið því innihaldslýsingu vel. 

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Haustsúpa með kartöflum og kjúklingabaunum

Fyrir 4-5

Innihald

  • 1 stór laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 gulrót
  • 350 g kartöflur
  • 1 msk kókosolía
  • 0,5 tsk turmeric
  • 0,5 tsk garam masala
  • 0,5 tsk karrí, milt
  • 400 g saxaðir tómatar (ferskir eða úr dós)
  • 850 ml vatn
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 0,5 tsk rautt karrímauk (meira eftir smekk)
  • 400 g kjúklingabaunir í dós
  • 85 g frosnar, grænar baunir (þessar litlu sætu sem heita peas á ensku)
  • Salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
  • Svartur pipar eftir smekk 
  • Ferskt coriander, nokkur lauf (má sleppa)

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið mjög smátt.
  2. Skrælið kartöfluna og gulrótina. Skerið kartöfluna í mjög smáa bita og gulrótina í sneiðar.
  3. Hitið kókosolíuna ásamt smá vatni í stórum potti á meðalhita. Bætið lauknum út í pottinn ásamt hvítlauknum og hitið í 3-4 mínútur eða þangað til laukurinn er farinn að mýkjast. Ekki láta hann brúnast.
  4. Bætið gulrótum, kartöflum, turmeric, garam masala og karríi saman við laukinn og hvítlaukinn og hitið í nokkrar mínútur.
  5. Bætið tómötunum, vatninu, grænmetisteningunum og karrímaukinu saman við ásamt svolitlu salti.
  6. Minnkið hitann og setjið lokið yfir. Hitið í 30 mínútur.
  7. Bætið kjúklingabaununum og grænu baununum út í og hitið í um 15 mínútur.
  8. Smakkið til súpuna með salti og pipar og meira af karrímaukinu ef þið viljið.
  9. Skreytið með söxuðum corianderlaufum.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Bæta má svolitlu af soðnu pasta út í súpuna til að gera hana matarmeiri.
  • Nota má kókosmjólk á móti vatninu til að gera súpuna þykkari.

Ummæli um uppskriftina

Kristín Una
07. jan. 2016

Ég gerði þessa súpu í kvöld og hún var alveg stórgóð, kom vel á óvart! Ég bætti pastastöfum út í fyrir eina fjögurra ára og sú borðaði súpuna með bestu lyst. Takk fyrir uppskriftina.

sigrun
07. jan. 2016

En gaman að heyra Kristín Una, og enn skemmtilegra að dóttur þinni hafi þótt súpan góð, það eru alltaf frábær meðmæli :)