Harissakjúklingur

Þessi uppskrift kemur úr bókinni okkar Moro. Moro er skrifuð af hjónum sem hafa ferðast um allan heim til að kynna sér ólíka matarmenningu og hefðir. Þau ákváðu svo að opna veitingastað í London þegar heim var komið og bjóða gestum upp á alls kyns framandi og spennandi rétti. Veitingastaðurinn heitir sem sé líka Moro og er afar vinsæll þó beri ekki mikið á honum. Í nýlegri könnun sem var gerð um daginn hér í blöðunum, þá var Moro valinn „mest vanmetni veitingastaðurinn” miðað við verð. Þá voru teknir inn í staðir eins og Fifteen (Jamie Oliver) og River Café sem eru mjög dýrir og þó að maturinn sé góður þá er maður að borga svo mikið fyrir nafnið að það er kannski ekki alveg þess virði. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Mér finnst Fifteen reyndar rosa góður. En sem sagt, Jóhannes eldaði þennan kjúklingarétt eitt kvöldið og hann heppnaðist bara vel (svona miðað við að Jóhannes eldar á 5 ára fresti). Harissa er yfirleitt borin fram með kúskús, soðnum eggjum og brauði og er hægt að geyma hana í margar vikur í ísskápnum. Sko í uppskriftina áttu að fara 250 GRÖMM af chili pipar en ég setti niður fótinn og sagði nei takk, ég ætla ekki að þurfa að hringja á slökkviliðið eftir að hafa borðað kvöldmat. Þannig að við minnkuðum chili pipar magnið úr 250 grömm í 50 grömm (sem er samt rúmur 1 chili pipar á mann) og það var fínt. Athugið samt að bæta aðeins meira við af sætu paprikunni í staðinn. Að sjálfsögðu er hægt að setja meiri chili pipar í réttinn en það fer allt eftir smekk auðvitað. Hafið bara handslökkvitækið tiltækt.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél eða töfrasprota til að gera harissa maukið.

Athugið einnig að notað er bæði cumin (jeerah seeds) og kúmen (caraway seeds) í réttinn, svona til að fyrirbyggja rugling.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta

Harissakjúklingur

Fyrir 2-3

Innihald

  • Heill kjúklingur, grillaður (um 1,5 kíló)
  • 4 rauðir chili pipar
  • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 tsk grófmulið kúmen (ekki cumin heldur kúmen (eins og er á kringlum))
  • 1 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 100 g piquillo pipar (sweet pepper), án viðbætts sykurs
  • 1,5 tsk tómatmauk (puree)
  • 1,5 tsk rauðvínsedik
  • 2 tsk sweet smoked paprika
  • 2 msk kókosolía
  • 2 msk safi af sætu paprikunum (ef venjuleg paprika er notuð má nota smá eplasafa í staðinn)
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Svartur pipar eftir smekk 

Aðferð

  1. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og skerið í bita.
  2. Afhýðið hvítlaukinn og saxið gróft.
  3. Setjið hvítlaukinn og chili piparinn í matvinnsluvél ásamt kúmeni, cumin, sweet smoked paprika og smá klípu af salti. Blandið í nokkrar sekúndur.
  4. Bætið piquillo paprikunni ásamt safanum út í og maukið vel. Það er mikilvægt að blanda vel eða þangað til chil ipiparinn er orðinn að mauki. Setjið í skál.
  5. Bætið við tómatmaukinu, edikinu og kókosolíunn. Bragðið til og bætið salti út í ef edikbragðið er of sterkt.
  6. Rífið kjúklinginn og setjið í eldfast mót.
  7. Penslið maukinu yfir kjúklinginn.
  8. Hitið við 180C í um 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Harissa geymist vel í kæli í nokkrar vikur en gott er að þekja vel með plastfilmu.
  • Ef þið notið ekki grillan kjúkling má steikja kjúkling (skinnlausan) upp úr smá kókosolíu og vatni. Notið aðeins free range kjúkling þ.e. „hamingjusaman” ef þið getið.
  • Piquillo pipar (sweet pepper) er sæt paprika sem er yfirleitt seld niðursoðin í krukkum. Kaupið hana án viðbætts sykurs. Ef þið fáið hana ekki án sykurs, grillið þá eina rauða papriku í ofni á mjög háum hita þangað til hún er orðin mjúk og hýðið farið að brenna. Afhýðið og fjarlægið fræin.
  • Sweet Smoked Paprika er sem sé sætt, reykt paprikuduft, samt ekki með sykri og er selt í litlum járndósum í flestum sælkerabúðum eða búðum með matvöru frá Miðjarðarhafslöndum.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.

Ummæli um uppskriftina

barbietec
03. júl. 2011

Eldaði þennan í fyrradag og er búin að versla í hann aftur! Hrikalega góður!

sigrun
03. júl. 2011

Gaman að heyra :)