Hálsbólgudrykkur

Ég krækti mér í svæsna hálsbólgu um daginn (sem er óvenjulegt því ég verð aldrei lasin) og vantaði eitthvað til að mýkja hálsinn sem var eins og sandpappír af grófleika 12. Þessi drykkur gerði nákvæmlega það. Hann er bæði frískandi og bragðgóður og inniheldur engin skrýtin efni eins og hóstasaft gerir yfirleitt. Ef maður er með kvef líka er gott að setja svolítinn bita af afhýddu, fersku engiferi (1 sm bút) út í og sjóða með.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Hálsbólgudrykkur

Fyrir 1-2

Innihald

  • 300 ml vatn
  • 2 msk agavesíróp
  • 1 negulnagli
  • 1 kanilstöng
  • Safi úr 1 sítrónu

Aðferð

  1. Sjóðið agavesíróp og vatn í nokkrar mínútur.
  2. Bætið negulnaglanum og kanilstönginni út í og látið malla í 20 mínútur með lokinu á.
  3. Fjarlægið negulnaglann og kanilstöngina.
  4. Setjið sítrónusafann út í.
  5. Berið fram heitt.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að setja 1 sm bút af fersku engiferi út í og sjóða með þegar maður er með kvef.
  • Nota má svolítinn appelsínusafa út í drykkinn.
  • Kæla má drykkinn og drekka hann svoleiðis

Ummæli um uppskriftina

Guðrún J
04. jún. 2011

lýst vel á, mun prófa í næstu flensu (vonandi langt í það!

Þorgerður
29. feb. 2012

Mmm...prófaði þennan og setti líka engifer, ekki bara góður í hálsinn, líka ótrúlega bragðgóður, algjört nammi.

sigrun
01. mar. 2012

Líst vel á engiferviðbótina Þorgerður og gaman að heyra að hann bragðaðist vel :)