Haframjölsterta

Þessi haframjölsterta er nú ekki eins klessulega óholl og venjuleg haframjölsterta en er engu að síður alveg prýðileg. Eina haframjölstertan sem ég hef haft kynni af í gegnum tíðina var bökuð af Jóhannesi manninum mínum þegar hann var unglingur (við þekktumst þegar við vorum unglingar). Hann bakaði hana fyrir eitthvað afmæli og það var svo mikill sykur í henni og svo mikið síróp að hún varð nánast fljótandi. Við horfðum á hana með skelfingu hristast þegar hún var borin frá eldhúsinu yfir á kökuborðið. Það fengu líka allir gestirnir niðurgang. Jóhannes gat ekki hugsað sér haframjölstertu í mörg ár en samþykkti að smakka þessa og var bara sáttur. Hann fékk a.m.k. engan niðurgang af henni.

Athugið að þið þurfið tvö 22 sm kringlótt smelluform

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Haframjölsterta

Gerir 1 köku

Innihald

Botn

  • 200 g döðlur, saxaðar gróft
  • 200 ml appelsínusafi
  • 250 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 200 g haframjöl
  • 2 msk kókosolía
  • 130 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 350 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
  • 2 egg
  • 140 g sulta (t.d. hindberja-, jarðarberja-, eða blönduð) án viðbætts sykurs

Súkkulaðikrem

  • 3-4 msk kakó eða carob
  • 1 banani, mjög vel þroskaður
  • 1 msk sojamjólk
  • 2 msk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 4 msk agavesíróp
  • 1 msk kaffi (má sleppa)
  • 2 msk kartöflumjöl (ef þarf)

Aðferð

  1. Byrjið á kreminu:
  2. Setjið banana, sojamjólk, vanilludropa, kaffi og agavesíróp í matvinnsluvél eða blandara. Blandið í 10 sekúndur. Bætið kakóinu út í og blandið áfram í 5 sekúndur.
  3. Kælið kremið í klukkustund í ísskáp.
  4. Útbúið botninn á meðan kremið kólnar:
  5. Saxið döðlurnar gróft og setjið í pott ásamt appelsínusafanum. Sjóðið döðlurnar í um 20 mínútur eða þangað til nokkuð maukaðar. Kælið og setjið til hliðar.
  6. Sigtið saman í stóra skál spelti og vínsteinslyftiduft. Bætið haframjölinu saman við og hrærið vel.
  7. Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggjum, kókosolíu, rapadura hrásykri og barnamat. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
  8. Klæðið 2 x 22 sm kringlótt smelluform með bökunarpappír. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna (þannig að þið fáið botn og lok) og gætið þess að deigið sé jafnt í formunum (ekki mis hæðótt).
  9. Bakið við 180°C í um 30 mínútur. 
  10. Kælið.
  11. Hellið vökva, ef einhver er, af döðlumaukinu og smyrjið því á botninn. Smyrjið sultunni svo ofan á döðlumaukið og setjið svo lokið ofan á.
  12. Takið súkkulaðikremið úr ísskápnum og smyrjið því á kökuna og á hliðarnar.

Gott að hafa í huga

  • Passið að deigið sjálft verði ekki of þurrt. Bætið meiri vökva við deigið ef ykkur finnst það þurrt.
  • Ef ykkur finnst kakan of þurr þegar hún kemur úr ofninum, látið hana þá standa tilbúna á borðinu í nokkrar klukkustundir áður en hún er borðuð. Kakan mun draga í sig vökvann af döðlumaukinu, sultunni og kreminu.
  • Ég nota gjarnan hindberjasultuna frá St. Dalfour eða jarðarberjasultuna frá Himneskri hollustu. Nota má aðrar sultur án viðbætts sykurs. Mjög góðar sultur fást í heilsubúðum.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
  • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.