Gulrótarkaka með möndlu- og kókoskremi

Kaka sem er best á þriðja degi! Hún er full af kalki, próteinum, hollri fitu og milljón vítamínum. Ef ykkur líkar við marsipanbragð þá er kremið það rétta fyrir ykkur því möndlurnar gefa nokkuð sterkt marsipanbragð. Ef ekki, má alveg setja eitthvað annað krem á kökuna. Fyrir þá sem eru með glúteinóþol má skipta út haframjölinu og nota einungis möndlur í botninn. Upplagt er að búa til kökuna deginum áður en á að bera hana fram. Kremið má svo gera samdægurs.

Þið getið flýtt fyrir ykkur með því að kaupa afhýddar og ristaðar heslihnetur.

Athugið að þið þurfið 24 sm kringlótt bökunarform og matvinnsluvél til þess að útbúa þessa uppskrift.


Gulrótarkaka sem lítur út eins og óholl kaka en er voða holl

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Gulrótarkaka með möndlu- og kókoskremi

Gerir 1 köku

Innihald

Kakan

  • 500 g gulrætur, skrældar og rifnar á rifjárni
  • 500 g döðlur, saxaðar gróft
  • 100 g mjúkt tofu, hellið vatninu af
  • 100 g cashewhnetur, malaðar
  • 50 g heslihnetur, þurrristaðar, afhýddar og malaðar
  • 60 g kókosmjöl
  • 40 g haframjöl
  • 40 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
  • 1 msk kanill
  • 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Kremið

  • 40 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
  • 30 g kókosmjöl
  • 100 g mjúkt tofu, hellið vatninu af
  • 3 msk hreint hlynsíróp eða agavesíróp
  • 0,5 tsk möndludropar (úr heilsubúð)
  • 1 msk kókosolía

Aðferð

  1. Byrjið á kreminu:
  2. Malið allar möndlurnar (bæði fyrir krem og botn = 80 gr) mjög fínt í matvinnsluvél. Látið vélina vinna í um 30 sekúndur eða þangað til mjölið er fínmalað en ekki olíukennt. Setjið helminginn af mjölinu til hliðar.
  3. Hellið vatninu af tofuinu, þerrið með eldhúsþurrku og bætið út í matvinnsluvélina ásamt kókosmjöli, hlynsírópi, möndludropum og kókosolíu. Látið vélina vinna í um 30 sekúndur eða þangað til vel maukað. Setjið í skál og geymið í ísskáp.
  4. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
  5. Skrælið gulræturnar og rífið þær á rifjárni. Setjið þær í stóra skál.
  6. Saxið döðlurnar smátt eða setjið þær augnablik í matvinnsluvél.
  7. Setjið cashewhnetur og heslihnetur í matvinnsluvélina og látið vélina vinna í um 15 sekúndur eða þangað til hneturnar eru nokkuð smátt saxaðar (en án þess að þær séu maukaðar). Bætið tofuinu út í vélina og blandið í um 5 sekúndur. Setjið í stóru skálina.
  8. Bætið út í stóru skálina: möndlumjöli, kókosmjöli, haframjöli, kanil, múskati og vanilludropum. Hnoðið allt vel saman. Ef deigið er laust í sér, bætið þá nokkrum matskeiðum af appelsínusafa út í deigið.
  9. Klæðið 24 sm kökuform með bökunarpappír. Þrýstið deiginu vel ofan í formið.
  10. Bakið við 200°C í 35-40 mínútur.
  11. Kælið kökuna og smyrjið kreminu ofan á. Kremið verður nokkuð og þið getið haft þynnra lag ef þið viljið og notað afganginn t.d. í smoothie (drykk) eða fryst það.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bera kökuna fram með svolitlum rjóma, þeyttum (venjulegum eða sojarjóma). Ég hef líka notað cashewhneturjóma með kökunni en finnst hann ekki passa með kökunni.
  • Nota má rúsínur á móti döðlunum.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ummæli um uppskriftina

wilddis
26. júl. 2011

Er hægt að nota eitthvað í staðin fyrir tofu?

sigrun
28. júl. 2011

Þú getur notað sama magn af maukuðum cashewhnetum eða macadamiahnetum