Gulrótarbuff

Mmm alveg ferlega góð og létt grænmetisbuff með voða lítilli fitu en heilmiklu af trefjum og vítamínum. Það var reyndar ekkert gaman að rífa hálft kíló af gulrótum með litla rifjárninu okkar í fyrsta skipti sem ég gerði þessa uppskrift. Ég átti bara svona dúkkurifjárn úr IKEA..átti ekkert annað á þeim tíma og var komin með blöðrur á fingurna eftir allt niðurrifið. Það var alveg þess virði en ég er reyndar búin að kaupa nýtt rifjárn!!!

Athugið að þið þurfið 50 grömm af spelt brauðraspi en slíkt má auðveldlega búa til með spelt hrökkbrauði og blandara/matvinnsluvél/töfrasprota.


Létt og trefjarík grænmetisbuff

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Gulrótarbuff

12 buff

Innihald

  • 500 g gulrætur, skrældar og rifnar frekar fínt
  • 2 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
  • 2 vorlaukar (eða hálfur blaðlaukur)
  • 60 g grænar, frosnar baunir (enska: peas)
  • 50 spelti
  • 50 g spelt hrökkbrauð (eða spelt brauðrasp)
  • 2 egg
  • 2 eggjahvítur
  • 0,5 tsk karrí
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 tsk pipar
  • Smá klípa chili pipar

Aðferð

  1. Skrælið gulræturnar og rífið frekar fínt á rifjárni (eða í matvinnsluvél með þar til gerðum diski).
  2. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
  3. Saxið vorlaukana smátt (allur vorlaukurinn notaður þ.e. græni og ljósi endinn).
  4. Setjið spelt hrökkbrauðið í matvinnsluvél og malið í um 5 sekúndur.
  5. Setjið vorlaukinn, hvítlaukinn og gulræturnar í stóra skál og hrærið vel.
  6. Hrærið egg og eggjahvítur saman og bætið karríi, spelti, pipar, chili pipar og grænum baunum út í. Hrærið vel.
  7. Bætið meira spelti við ef deigið er of blautt. Það má vera nokkuð blautt þ.e. það verður ekki „stíft” (meira eins og hrásalat).
  8. Mótið 12 buff í höndunum, þau eru svolítið laus í sér en það er allt í lagi.
  9. Hitið pönnu í meðalhita og hitið buffin á pönnunni í um 10 mínútur á hvorri hlið (ef þið eigið góða pönnu er óþarfi að nota olíu). Einnig má hita buffin í um 20 mínútur í bakstursofni en þau verða skemmtilegri ef þau eru hituð á pönnu.
  10. Það er gott að bera fram létta sinnepssósu, bygg eða hýðishrísgrjón sem og salat með buffunum.

Gott að hafa í huga

  • Það er voða gott að blanda nokkrum möluðum cashewhnetum eða furuhnetum saman við deigið.
  • Einnig má velta buffunum upp úr sesamfræjum og baka svoleiðis.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Nota má kartöflumjöl í staðinn fyrir spelti.
  • Nota má glúteinlaust brauð í staðinn fyrir spelt hrökkbrauð.

Ummæli um uppskriftina

Dísa sveins
17. júl. 2012

Er hægt að nota eitthvað annað í stað eggjanna

sigrun
17. júl. 2012

&;Það er ekki auðvelt að skipta þeim út því þau halda borgurunum saman. Þú getur alltaf notað 2 msk möluð hörfræ og um 5 msk vatn en athugaðu að bragð, áferð o.fl verður ekki eins :)&;