Gullnar piparkökur
25. nóvember, 2007
Maður minn...lyktin sem kemur þegar maður bakar þessar. Namm. Vildi að ég gæti pakkað henni í krukku og átt að eilífu. Þessar piparkökur eru sérlega hollar, jólalegar og góðar og mjög fljótlegar í undirbúningi. Þessi uppskrift að smákökum hentar vel þeim sem hafa eggjaóþol, mjólkuróþol og hnetuóþol. Einnig hentar hún jurtaætum (enska: vegan) því engar dýraafurðir eru notaðar í uppskriftina.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Gullnar piparkökur
Gerir um 30 piparkökur
Innihald
- 185 g spelti
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 3 tsk kanill
- 5 msk kókosolía
- 115 ml agavesíróp
- 4 msk rapadura hrásykur (eða muscovado sykur)
Aðferð
- Hitið ofninn í 200°C.
- Sigtið saman í stóra skál: spelti, lyftiduft og kanil. Hrærið vel.
- Setjið agavesíróp, rapadura hrásykurinn og kókosolíu í pott. Hitið varlega, á mjög lágum hita og hrærið vel þangað til allt blandast saman. Kælið í smástund.
- Hellið innihaldi pottsins í stóru skálina og hnoðið deiginu vel saman. Gott er að nota deigkrók á hrærivél.
- Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Rúllið deiginu í litlar kúlur og leggið á plötuna. Gætið þess að hafa um 2 sm bil í næstu köku.
- Ýtið aðeins ofan á kökurnar með gaffli (gott að dýfa í spelti áður en þið ýtið ofan á kökuna).
- Bakið í um 8-10 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullnar (eða þangað til góða lyktin er alveg að fara með ykkur!).
Gott að hafa í huga
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má svolitla klípu af negul með kanilnum.
- Muscovado sykur fæst í heilsubúðum.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2023
Ummæli um uppskriftina
18. nóv. 2010
Síðan verður ekki síðri fyrir þetta.
Takk fyrir allar frábæru uppskriftirnar þínar.
Bestu kveðjur