Grunnuppskrift að brauði

Það er hægt að nota allt mögulegt í þetta brauð, hnetur, haframjöl, ólífur og krydd og bara hvað sem til er í skápnum. Mjög einfalt og tekur stuttan tíma að búa til.


Gróft og gott brauð við öll tækifæri

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Grunnuppskrift að brauði

Gerir 1 brauð

Innihald

  • 530 g spelti
  • 1,5 msk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 400 ml AB mjólk, jógúrt eða súrmjólk. Gæti þurft meira eða minna
  • 1 tsk agavesíróp
  • 60 g haframjöl (eða sólblómafræ, hörfræ, hirsi, sesamfræ o.fl.)

Aðferð

  1. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í skál.
  2. Hrærið AB mjólk og agavesíróp saman og hellið út í skálina.
  3. Hrærið varlega í deiginu (um 8-10 sinnum eða rétt þangað til hráefnið blandast saman). Gætið þess að hræra ekki of mikið.
  4. Bætið haframjölinu, fræjunum eða öðru því sem þið viljið nota út í deigið og hrærið varlega nokkrum sinnum.
  5. Bætið svolitlu vatni við ef deigið er of þurrt. Gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Ágætt er að miða við að deigið leki ekki af sleif en sé þó ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  6. Klæðið brauðform að innan með bökunarpappír og hellið deiginu í formið.
  7. Bakið við 180-190°C í 40 - 50 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Til að fá harða skorpu allan hringinn er gott að taka brauðið úr forminu síðustu 15 mínúturnar, snúa við og leggja á bökunarpappírinn.
  • Ef þið notið ekki jógúrt, AB mjólk eða súrmjólk getið þið blandað mjólkinni sem þið notið saman við 1 msk sítrónusafa og látið standa á borðinu þangað til hún fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).

Ummæli um uppskriftina

eddaholmberg
26. feb. 2011

Þetta brauð er alveg frábært því það er svo einfalt og fljótlegt að búa það til og svo er það svo gott.

sigrun
26. feb. 2011

Gaman að heyra Edda og takk fyrir að deila með okkur :)

gestur
31. mar. 2011

frábært brauð :) takk fyrir mig Sigrún

sigrun
31. mar. 2011

Gaman að heyra að þér líkaði brauðið :)

gestur
06. apr. 2011

Sæl
Hvað notar þú í staðinn fyrir AB mjólk og mjólk?
Kærar þakkir fyrir frábæran vef!

sigrun
07. apr. 2011

Þú getur notað sojamjólk (prófaðu þig áfram með minna magn og bættu við eftir þörfum) og 1 msk af sítrónusafa. Settu sítrónusafann út í sojamjólkina og láttu hana standa á borðinu í 10 mínútur. Hún fer aðeins í kekki og þannig geturðu notað hana í brauð í staðinn fyrir súru mjólkurvörurnar.

gestur
18. mar. 2012

Gerði brauðið vegan og bætti fullt af hvítlauk og sólþ. tómata mjög gott, takk aftur og aftur fyrir uppskriftirnar hjá þér sigrún :)

sigrun
19. mar. 2012

Mmmmmm hljómar vel, takk fyrir að deila :)

Svandís Sigurjónsdóttir
02. jan. 2013

Sæl,

Þetta er brauð sem ég hef bakað oft og finnst alveg sérlega gott. Ég er að prófa að baka það með 50/50 vatni og rísmjólk núna en hef vanalega notað 100% rísmjólk (ég nota hvorki soja né mjólkurvörur).

Einu lendi ég oft í með þetta brauð (og mörg önnur ger, mjólkur og hveitilaus brauð). Þau eru svo laus í sér og þegar ég sker það í sneiðar þá molnar skorpan utan af því. Veist þú af hverju þetta gerist og hvað ég get gert til að sporna við því?

sigrun
02. jan. 2013

Hæ hó.

Losnar skorpan frá brauðinu eða molnar hún í mola? Ef hún losnar alveg frá brauðinu þá hefur deigið verið of blautt en ef það molnar þá hefur deigið líklega verið aðeins of þurrt?

Svo er mjög mikilvægt að nota fluuuuuugbeittan brauðhníf.

Vona að þetta hjálpi eitthvað en ég veit hvað þú meinar, þetta er ergilegt.

Sonja Ólafs
19. feb. 2013

Sæl Sigrún

Er ekki hægt að baka svona brauð án sýru? Ég get hvorku borðað sítrónusafa né súrar mjólkurvörur (jógúrt er samt allt í lagi)

Kv Sonja

sigrun
19. feb. 2013

Þú getur notað jógúrt, súrmjólk eða AB mjólk í öll svona brauð og þarft þá ekki að sítrónusafa. Sítrónusafinn er sniðugur ef fólk er með mjólkuróþol eða ef það er vegan en annars má nota það sem ég taldi upp hér að framan. Kv. Sigrún

Sonja Ólafs
22. feb. 2013

Takk takk :)

Þetta er mjög gott brauð og helst mjúkt lengi.
En er hægt að nota eitthvað annað, eins og t.d. edik, ef ég þarf að sleppa mjólkurvörum? Ég þoli alls ekki sítrus.

Kv Sonja

sigrun
23. feb. 2013

Sæl Sonja :)

Þú ættir að geta notað eplaedik og svo t.d. sojamjólk eða hrísmjólk (eða sojajógúrt, hrísjógúrt).

Ragnheiður Ingadóttir
10. júl. 2015

Sæl Sigrún og takk fyrir góðar uppskriftir.

Er ekki í lagi að nota heilhveiti og setja í 2 form. Má ekki örugglega frysta brauðið.

Kv.
Ragnheiður.

sigrun
10. júl. 2015

Sæl Ragnheiður

Þú þarft líklega að stytta baksturstímann aðeins ef þú notar 2 minni form því tíminn er miðaður við eitt stórt form. 

Það er allt í lagi að nota heilhveiti en athugaðu að prófa þig áfram með vökvann (notaðu minni vökva fyrst en segir til um í uppskriftinni og bættu svo við eins og þarf), spelti og heilhveiti er ekki alltaf nákvæmlega eins hvað rakaþörf varðar.

Það er í fínu lagi að frysta brauðið og hita það svo varlega upp aftur síðar :)

Gangi þér vel!