Gróft fjölkornabrauð

Maður getur alveg fiktað með innihaldið í þessu brauði því uppskriftin er svo einföld og sveigjanleg. Þetta brauð er sérlega trefjaríkt og vítamínríkt, sannkallað hollustubrauð sem fer vel í nestisboxið, í brauðristina eða með sultu og osti á morgnana.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Vegan

Gróft fjölkornabrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

  • 600 g spelti
  • 2 msk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 500 ml sojamjólk. Gæti þurft meira eða minna
  • 2 msk sítrónusafi
  • 2 msk hörfræ
  • 40 g sesamfræ
  • 25 g sólblómafræ
  • 50-100 ml vatn

Aðferð

  1. Hrærið saman spelti, vínsteinslyftiduft og salt í stóra skál.
  2. Blandið saman 50 ml sojamjólk og sítrónusafanum. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur). Hellið svo út í stóru skálina.
  3. Bætið afganginum af sojamjólkinni út í. Athugið að hræra ekki of mikið í deiginu (hrærið svona 8-10 sinnum í gegnum degið, rétt þannig að það blandist saman).
  4. Bætið fræjunum varlega saman við.
  5. Bætið vatni út í deigið eftir þörfum. Deigið á að vera frekar blautt/klístrað en má alls ekki leka hratt af t.d. sleif.
  6. Klæðið brauðform að innan með bökunarpappír og hellið deiginu í formið.
  7. Bakið við 175°C í um eina klukkustund. Gott er að athuga með brauðið eftir um 45 mínútur (stinga prjóni inn í brauðið, ef hann kemur hreinn út er brauðið tilbúið).

Gott að hafa í huga

  • Til að fá harða skorpu allan hringinn, takið þá brauðið úr forminu og leggið það á hvolf á bökunarplötuna síðustu 10-15 mínúturnar.
  • Skipta má fræjunum út fyrir t.d. haframjöl, birkifræ, graskersfræ hveitiklíð eða eitthvað annað.
  • Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
  • Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.

Ummæli um uppskriftina

gudrunyre
27. mar. 2012

þetta brauð á ég alltaf til í frystinum, er svo gott að henda því í ristina og, lyftir sér svo að það er eins og "venjulegt" brauð ;)

sigrun
27. mar. 2012

Sniðugt að eiga í frystinum :)

Ásta Sólveig
29. mar. 2012

Finnst þetta svo stór uppskrift m.v. að hún sé í eitt form, svo ég spyr, hvað er formið stórt sem þú ert með? :)

...og annað, má þetta vera haframjólk? eða rísmjólk?

sigrun
29. mar. 2012

Öll brauðformin mín taka um 1 kg.

Þú getur notað hvaða mjólk sem er :)

Ingibjörg Ósk
19. nóv. 2012

Var að baka þetta brauð og það er alveg æðislega gott! Takk fyrir frábæru uppskriftirnar þínar, Sigrún.

sigrun
19. nóv. 2012

Gaman að heyra Ingibjörg og takk fyrir að deila með okkur :)

gestur
09. jún. 2013

Eiga í alvörunni að vera 600g af spelti í þessu?! Mér finnst það svo mikið þegar ég baka þetta brauð

sigrun
09. jún. 2013

Jú 600 g. Enda eru 500 ml af vökva á móti. Þú getur notað helminginn af uppskriftinni ef þú vilt minna brauð. Þetta brauð er stórt (samlokubrauð)!

gestur
09. jún. 2013

takk... en hve mikið deig á að fara í formið? á það að ná upp til helmings eða hærra?

sigrun
09. jún. 2013

Það fer eftir stærðinni á forminu. En ef þú ert með um það bil 1 lítra form ætti deigið að ná allavega 3/4 upp að brún. Ef það nær lengra er formið líklega svolítið lítið. Ef þú átt tvö form geturðu skipt á milli þeirra og bakað við aðeins styttri tíma.

gestur
09. jún. 2013

Takk kærlega fyrir :)

gestur
17. mar. 2014

Ef ég mala fræin (er að hugsa um að baka þetta brauð fyrir einn 11 mánaða) mæliru þá með að minnka magnið af speltinu? Og get ég ekki alveg skipt út hluta af speltinu fyrir malaða hafra?

sigrun
17. mar. 2014

Ég er ekki alveg klár á því hvort að möluðu fræin kalli á minna spelti. Ég myndi bara nota sama magn af speltinu og prufa mig frekar áfram með vökvann þ.e. nota ekki of mikinn vökva (auðveldara að bæta í en draga úr). Þú getur líklega notað malaða hafra á móti en aftur, ég myndi prufa mig áfram með mjólkina því spelti er svakalega dyntótt!

gestur
19. mar. 2014

Kærar þakkir fyrir svarið. Ég notaði aðeins meira af vatni á móti möluðu fræunum og heppnaðist brauðið mjög vel. En er þetta of trefjaríkt fyrir lítil börn (11 mánaða), er betra að nota fínt spelti?

sigrun
19. mar. 2014

Já ég myndi telja að brauðið væri of trefjaríkt fyrir 11 mánaða með öllum fræjunum í. Líklega er best að nota bara fínt spelti, nema kannski gróft á móti ef gengur illa hjá barninu að losa hægðir?

gestur
16. jún. 2016

Er að prófa þessa uppskrift, en er ekki viss með hvort spelthveitið eigi að vera fínt eða gróft og eins hvort hitinn og tíminn á bökun miðist við blástursofn?

sigrun
16. jún. 2016

Ég nota sjálf alltaf gróft spelti í minn bakstur. Allur tími miðast við blástursofn. Ef þú ert ekki með blástur bakarðu á aðeins lægri hita (um 20°C eða svo, fer eftir ofninum) og hugsanlega í aðeins lengri tíma (fer einnig eftir ofninum).

Hér eru svo spurningar og svör varðandi bakstur: http://cafesigrun.com/spurtogsvarad

gestur
26. jún. 2016

Takk fyrir gott svar 16.júní :) Ég prófaði uppskriftina aftur og nú með grófu spelti, bætti svo graskersfærjum í, þannig að þetta varð um 160g fræblanda sem fór í brauðið. Var vön að nota þessa fræblöndu í súrdeigsbrauð sem ég hef bakað í 1 og 1/2 ár,þ.e. blanda af: graskers-, hör-, sesam- og sólblómafræjum.
Brauðið er alveg frábært!!! og ég mun baka það oft aftur :)
Takk fyrir frábærar uppskriftir hér á síðunni :)
Hætti að baka súrdeigsbrauð vegna þess að súrdeigsmamman dó þegar ég fór að nota speltheveiti til að næra hana. Ég finn kannski leið til að búa til annan starter úr spelti.

sigrun
27. jún. 2016

Mín var ánægjan :) Blandan þín hljómar vel. 

Ég er mjög spennt fyrir því að prufa speltið með súrdeigsmóður en hef ekki komið mér upp slíkri. Ég hef séð spelt-súrdeigsbrauð í verslunum, það er kannski snúið að útbúa súrdeigsbrauð úr spelti....spennandi!

Hrafnhildur Hlín
18. ágú. 2016

Sæl Sigrún.

Ég er að spá í að prufa þessa uppskrift. Get ég notað malað haframjöl í staðin fyrir speltið?

Hefur þú prufað að bæta kryddjurtum í það?

Kv. Hrafnhildur

sigrun
18. ágú. 2016

Þú gætir prufað en haframjöl getur verið glútenlaust sem þýðir að það vantar alveg „límið" í það (límið sem er í glúteni og heldur brauðinu saman). Það er hugsanlegt að það detti í sundur eftir bakstur. Ég myndi hugsa ég prufa að bæta við xanthan gum (1 tsk) eða nota haframjöl á móti speltinu. Þú getur einnig notað 1-2 egg ef þú ert ekki vegan en þá verður brauðið auðvitað svolítið ólíkt upprunalegu uppskriftinni.

Þú getur alveg notað kryddjurtir já já, hef sett endalaust af kryddjurtum í brauðið og verður bara betra :)