Grískar möndlukökur

Þetta eru svokallaðar grískar möndlukökur. Mér finnst þær nú svipaðar og kransakökur svona í minningunni (tugir ára síðan ég smakkaði kransaköku). Þó að þessar kökur séu frekar hitaeiningaríkar eru þær próteinríkar (möndlur og eggjahvítur) og möndlurnar innihalda helling af kalki fyrir beinin okkar. Upplagðar kökur með kaffinu. Eins eru þetta fínar kökur fyrir þá sem hafa hveiti eða glúteinóþol þar sem þær innihalda ekkert hveiti, spelti eða annað slíkt.

Best er að kaupa möndlumjölið tilbúið (fæst í flestum matvöruverslunum) og hrásykurinn má mala í hreinni kryddkvörn. Nota má erythritol sykur á móti hrásykrinum til að minnka sykurmagnið. 

Gott er að nota sprautupoka ef þið eigið einn slíkan.


Glúteinlausar grískar möndlukökur, upplagðar með kaffinu

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur

Grískar möndlukökur

Gerir 30 kökur

Innihald

 • 375 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
 • 170 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 3 eggjahvítur
 • 1 tsk möndludropar (úr heilsubúð)
 • 60 g möndluflögur

Aðferð

 1. Malið hrásykurinn augnablik í hreinni kryddkvörn.
 2. Þeytið eggjahvíturnar í tandurhreinni og fitulausri skál og bætið sykrinum út í smátt og smátt þangað til eggin eru orðin stífþeytt og glansandi og toppar farnir að myndast. Bætið möndludropunum út í og hrærið í 2 sekúndur.
 3. Veltið (ekki hræra) möluðu möndlumjölinu út í og reynið eins og þið getið að „merja” ekki loftið úr eggjunum.
 4. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið blönduna í sprautupoka og sprautið 5-7 sm skeifur á bökunarplötunni. Þið gætuð þurft tvær plötur. Myljið möndluflögurnar aðeins og dreifið þeim yfir kökurnar. Ýtið létt ofan á.
 5. Bakið við 180°C í um 15-20 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullbrúnar.
 6. Ekki opna ofninn fyrstu 15 mínúturnar.

Gott að hafa í huga

 • Ef þið fáið ekki möndlumjöl, setið þá möndlur eða möndluflögur í augnablik í matvinnsluvél eða blandara. Blandið þangað til fínkornótt án þess að verði olíukennt.
 • Athugið að rapadura hrásykur er frekar dökkur og ef þið viljið ljósari kökur er betra að nota aðra gerð af hrásykri.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.