Grísk salatsósa

Þetta er holl og góð sósa sem hentar með alls kyns mat, t.d. grænmetisbuffum, niðurskornu grænmeti, grillmat, á salöt o.fl.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Grísk salatsósa

500 ml

Innihald

 • Hálf gúrka, söxuð smátt (sumum finnst gott að hreinsa fræin úr)
 • 1-2 hvítlauksrif, marið
 • 500 ml AB mjólk eða hrein jógúrt. Þeir sem hafa mjólkuróþol geta auðveldlega notað sojajógúrt í staðinn.
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

 1. Saxið gúrkuna og hreinsið fræin úr með teskeið ef þið viljið.
 2. Saxið hvítlaukinn smátt eða pressið.
 3. Setjið í skál og bætið AB mjólkinni, saltinu og piparnum saman við.
 4. Kælið í klukkustund eða meira.

Gott að hafa í huga

 • Til að fá þykkari salatsósu má láta AB mjólkina eða jógúrtina renna í gegnum grisju (setjið grisju í sigti og hellið AB mjólkinni út í).
 • Einnig má nota gríska jógúrt en hún er fitumeiri.