Grænmetis Pilau

Klassískur indverskur réttur, mjög bragðgóður og mildur og upplagður sem fjölskyldumáltíð. Ég smakkaði svona Pilau fyrst á uppáhalds indverska veitingastaðnum okkar í London. Hann heitir Jaflong og er í South-Harrow þar sem við bjuggum í 3 ár (meirihluti Indverjar sem búa þar sem útskýrir góða matinn). Þessi réttur er nú ekki eins góður og á Jaflong, en er smá tilraun í áttina kannski og aðeins hollari!


Reglulega ljúfur og bragðgóður indverskur hrísgrjónaréttur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Grænmetis Pilau

Fyrir 2-3

Innihald

 • 225 g hýðishrísgrjón
 • 1 laukur
 • 1 msk kókosolía
 • 25 g cashewhnetur
 • 2 msk cumin fræ (EKKI kúmen)
 • 0,25 tsk malað cumin (ekki kúmen)
 • 2 lárviðarlauf
 • 4 heilar kardimommur
 • 4 negulnaglar (e. cloves)
 • 50 g frosnar, grænar baunir (látið þær þiðna)
 • 50 g maískorn, frosið eða úr dós (án viðbætts sykurs)
 • 475 ml vatn
 • 0,5 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

Aðferð

 1. Skolið grjónin vel þangað til vatnið af þeim er orðið tært. Leggið grjónin í bleyti í 30 mínútur.
 2. Afhýðið laukinn og saxið fremur smátt. Setjið til hliðar
 3. Hitið stóra pönnu (án olíu) og þurrristið cashewhneturnar í 5-7 mínútur eða þangað til þær eru farnar að taka lit. Setjið til hliðar.
 4. Hitið 1 matskeið af kókosolíunni á pönnunni og steikið cumin fræin í um 3 mínútur eða þangað til þau fara að ilma.
 5. Bætið malaða cumininu, lárviðarlaufunum, kardimommunum og negulnöglunum út á pönnuna og steikið í 2 mínútur.
 6. Bætið lauknum við og steikið í 5 mínútur þangað til hann er orðinn mjúkur.
 7. Látið vatnið renna af grjónunum og setjið á pönnuna ásamt afganginum af kókosolíunni, grænu baununum, maískorninu og cashewhnetunum, Steikið í 4-5 mínútur.
 8. Bætið 250 ml af vatni út á pönnuna ásamt salti. Látið suðuna koma upp, setjið lok á pönnuna og látið krauma í 25 mínútur við lágan hita þangað til mesti vökvinn er farinn.
 9. Slökkvið á hitanum, látið pönnuna standa í 10 mínútur með lokinu á áður en rétturinn er borinn fram.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með mangomauki (mango chutney), jógúrtsósu og jafnvel chapati brauði.
 • Þessi réttur er mjög góður kaldur líka þannig að það er upplagt að setja afganginn í nestisboxið.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ef þið eruð ekki vegan eða grænmetisætur, er gott að setja svolítið af elduðu kjúklinga- eða lambakjöti út í réttinn.

Ummæli um uppskriftina

Engin ummæli hafa verið rituð

Skrifa ný ummæli

Vinsamlegast athugið að reiti merkta með * þarf að fylla út.
 
Innihald þessa svæðis verður ekki sýnilegt almenningi.
Þessi spurning hér að neðan er til að varna því að spamvélar geti sett inn sjálfvirkar færslur.
Vinsamlegast leggðu saman tölurnar og skrifaðu niðurstöðurnar. T.d. fyrir einn plús þrír, skaltu skrifa 4.
sex plús níu eru