Fylltar paprikur
26. september, 2004
Þessa uppskrift smakkaði ég fyrst á námskeiði hjá Sollu á Grænum kosti og birti ég uppskriftina með góðfúslegu leyfi hennar. Þetta er mjög saðsamur matur en hollur og góður þar sem í honum eru t.d. hnetur, tofu, grænmeti o.fl. Uppskriftin birtist nánast eins og ég fékk hana en ég breytti bara smá. Mjög auðvelt er að gera uppskriftina vegan með því að nota sojaost en þannig var uppskriftin upphaflega. Athugið að nota þarf matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Fylltar paprikur
Fyrir 3-4
Innihald
- 4 rauðar eða appelsínugular paprikur [í upphaflegri uppskrift voru notaðar rauðar paprikur]
- 150 g sólþurrkaðir tómatar [ég nota tómata án olíu]
- 150 g kjúklingabaunir [ég nota þær í staðinn fyrir þistilhjörtu]
- 150 g möndlur eða hnetur t.d. cashew eða heslihnetur
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Smá klípa svartur pipar
- 150 g stíft tofu hellið vatninu af og kreistið aðeins með eldhúsþurrku
- 1 tsk basil [eða 1 lófafylli ferskt, grænt krydd t.d. coriander, basil eða timian]
- 150 g magur ostur
- 10-20 g parmesan
Aðferð
- Rífið magra ostinn og parmesan ostinn. Setjið til hliðar.
- Skerið paprikurnar í helminga (í gegnum græna stilkinn) og hreinsið fræin og himnurnar úr.
- Saxið sólþurrkuðu tómatana smátt og leggið í bleyti í 20 mínútur. Hellið vatninu af.
- Setjið hneturnar í matvinnsluvél og látið vélina vinna í 10-15 sekúndur.
- Látið vatnið renna af kjúklingabaununum og bætið þeim út í matvinnsluvélina ásamt tofui, sólþurrkuðu tómötunum, basil, salt og pipar. Látið vélina vinna í 5-10 sekúndur eða þangað til allt er vel maukað.
- Bætið helmingnum af ostinum út í matvinnsluvélina og blandið áfram í nokkrar sekúndur.
- Setjið fyllinguna í skál og mokið 1-2 matskeiðum af fyllingu í hvern paprikuhelming.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið paprikuhelmingunum á plötuna (fyllingin á að snúa upp).
- Dreifið afganginum af báðum ostategundum yfir paprikurnar.
- Bakað við 200°C í 20-25 mínútur eða þangað til paprikurnar eru aðeins farnar að mýkjast og osturinn er bráðinn.
- Skreytið með fersku grænu kryddi.
Gott að hafa í huga
- Gott er að bera fram með þessum rétti hýðishrísgrjón eða bygg ásamt salati.
- Í upphaflegri uppskrift eru rauðar paprikur notaðar en mér finnst fínt að nota gular og appelsínugular paprikur líka.
- Ég nota kjúklingabaunir í staðinn fyrir þistilhjörtu því þau eru svo dýr en það er alls ekki verra að nota þistilhjörtu (hellið olíunni af).
- Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið með eldhúsþurrku.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024