Flap Jack (orkukubbur)

Það er voða gott að hafa svona&;orkukubba við hendina ef maður er t.d. að fara í flugferð, bílferð eða í gönguferð og þarf „orkuskot” fljótt, nú eða í nesti í skólann eða vinnuna. Þessir orkukubbar eru sem sagt mjög hollir og góðir en myndu seint teljast næringarsnauðir. Það eru margar hitaeiningar í muesli með rúsínum og hnetum, haframjöli o.s.frv. en allt nauðsynlegar og hollar hitaeiningar, fullar af vítamínum, próteinum og flóknum kolvetnum. Neytið kubbanna sem sagt sparlega en njótið :) Það er upplagt að búa til helling af þeim í einu og frysta. Kubbarnir eru bestir nýbakaðir en einnig má rista einn og einn í brauðrist eða hita í ofni.

Athugið að fyrir þessa uppskrift þurfið þið 20 sm ferkantað bökunarform.

Til að flýta fyrir ykkur getið þið heslihnetur sem búið er að afhýða og rista.


Orku- og vítamínpakki í einum kubbi

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Flap Jack (orkukubbur)

Gerir 14 stykki

Innihald

  • 50 g heslihnetur, þurrristaðar og afhýddar
  • 6 döðlur, saxaðar smátt
  • 6 þurrkaðar aprikósur (þessar dökkbrúnu, ekki appelsínugulu), saxaðar smátt
  • 200 g muesli eða granola með hnetum og rúsínum, döðlum og aprikósum
  • 80 g rúsínur
  • 100 g haframjöl
  • 60 g spelti
  • 0,5 tsk kanill 
  • 5 tsk rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 egg
  • 2 msk kókosolía
  • 3 msk hreint hlynsíróp
  • 2 msk appelsínusafi eða meira eftir þörfum

Aðferð

  1. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna.
  2. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið hneturnar smátt.
  3. Saxið döðlur og aprikósur smátt og setjið í stóra skál.
  4. Bætið muesli, hnetum og rúsínum saman við og hrærið vel.
  5. Blandið saman spelti og kanil og setjið út í skálina.
  6. Hrærið saman eggi, hlynsírópi, rapadura hrásykri, appelsínusafa og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina og hrærið mjög vel. Ef deigið er of þurrt, bætið þá smávegis í viðbót af appelsínusafa.
  7. Klæðið 20 sm bökunarform með bökunarpappír og hellið deiginu út í. Þrýstið mjög þétt ofan í formið og vel utan í alla kanta og horn. 
  8. Bakið við 170°C í um 25-30 mínútur.
  9. Kælið í um 10 mínútur og skerið í með mjög beittum hnífi. Skerið varlega svo bitarnir molni ekki.
  10. Borðið nokkra strax (eigið það skilið eftir baksturinn).
  11. Setjið afganginn í blastbox. Geymast í lokuðu íláti í nokkra daga. Best er að stinga þeim í brauðristina eða bakaraofninn til að hita upp.

Gott að hafa í huga

  • Hægt er að skipta hnetum út fyrir t.d. sesamfræjum, sólblómafræjum, graskersfræjum, kókosmjöli, þurrkuðum kirsuberjum, goji berjum o.s.frv.
  • Hægt er að frysta bitana og geyma í allt að 3 mánuði.
  • Ef ekki er notað muesli má nota meira haframjöl og saxa til viðbótar 6 þurrkaðar apríkósur og 6 þurrkaðar döðlur ásamt 50 g af söxuðum heslihnetum til viðbótar.

Ummæli um uppskriftina

Hulda Stefanía
25. nóv. 2010

Er hægt að nota fíkjur í staðinn fyrir döðlur?

sigrun
25. nóv. 2010

Ég myndi ekki nota meira en 1-2 fíkjur og auka svo við rúsínur og aprikósur í staðinn. Fíkjurnar geta verið svo lausar í sér og þá haldast bitarnir illa saman.

Tinna Hrund Birgisdóttir
19. okt. 2011

Æðislega girnilegt. Hef einmitt verið að kaupa allskonar granola bars og cereal bars en það er bara rosalega mikil fita og sykur í því. Ætla að prófa þetta á morgun.

sigrun
20. okt. 2011

Vonandi heppnast vel :)

helga helga
15. nóv. 2011

Er hægt að frysta þessar?

sigrun
15. nóv. 2011

Já já alveg hægt en til að þeir 'þorni' aftur bitarnir er gott að hita bitana í ofni á um 150°C í 10 mín.....