Ferskur aspars með appelsínu-sesamsósu

Þetta er nú eiginlega forréttur, mjög spes (en góður) á bragðið og hentar ekki með öllu. Ég hafði smjörbaunasalat í aðalrétt og þetta var mjög gott með. Þessi uppskrift er upprunalega komin frá Waitrose, búðinni okkar góðu sem við verslum í hérna í London en ég breytti henni þó aðeins. Best er að kaupa aspars á vormánuðum því þá er hann „in season". Forréttinn má líka bera fram sem meðlæti.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Vegan

Ferskur aspars með appelsínu-sesamsósu

Fyrir 2

Innihald

 • 500 g ferskur aspars
 • 1 msk sesamfræ
 • 2 msk hrísgrjónaedik
 • 2 tsk Dijon sinnep
 • 1 tsk tamarisósa
 • 1 tsk engiferrót, rifin fínt
 • 1 tsk appelsínubörkur, rifinn fínt
 • 1 hvítlauksrif pressað
 • 0,5 tsk agavesíróp
 • 1 msk sesamolía
 • 1 msk ólífuolía

Aðferð

 1. Skerið u.þ.b. 5 cm bita af endanum af hverjum aspars og skafið síðan neðri hlutann með grænmetisflysjara.
 2. Sjóðið asparsinn í léttsöltu vatni í u.þ.b. 5 mínútur.
 3. Hellið vatninu varlega af og skolið asparsinn undir rennandi, köldu vatni.
 4. Þerrið asparsinn og geymið í kæli í 30 mínútur eða lengur.
 5. Léttbrúnið sesamfræin á þurri pönnu og kælið.
 6. Hrærið saman edikið, sinnepið, tamarisósuna, engiferrótina, appelsínubörkinn, hvítlaukinn og agavesírópið.
 7. Bætið sesamolíunni og ólífuolíunni smátt og smátt saman við og þeytið vel á meðan svo allt blandist vel saman.
 8. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk og geymið sósuna í kæli þangað til maturinn er borinn fram.
 9. Leggið nokkra asparsstöngla á forréttardiska (má hafa salatblöð með) dreypið sósunni yfir og stráið sesamfræjum svo yfir allt saman.

Gott að hafa í huga

 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að hún inniheldur hveiti.
 • Gera má sósuna deginum áður en best er að sjóða asparsinn ekki fyrr en rétt áður en á að bera hann fram.

Ummæli um uppskriftina

Engin ummæli hafa verið rituð

Skrifa ný ummæli

Vinsamlegast athugið að reiti merkta með * þarf að fylla út.
 
Innihald þessa svæðis verður ekki sýnilegt almenningi.
Þessi spurning hér að neðan er til að varna því að spamvélar geti sett inn sjálfvirkar færslur.
Vinsamlegast leggðu saman tölurnar og skrifaðu niðurstöðurnar. T.d. fyrir einn plús þrír, skaltu skrifa 4.
átta plús sex eru