Ferskur aspars með appelsínu-sesamsósu
2. mars, 2003
Þetta er nú eiginlega forréttur, mjög spes (en góður) á bragðið og hentar ekki með öllu. Ég hafði smjörbaunasalat í aðalrétt og þetta var mjög gott með. Þessi uppskrift er upprunalega komin frá Waitrose, búðinni okkar góðu sem við verslum í hérna í London en ég breytti henni þó aðeins. Best er að kaupa aspars á vormánuðum því þá er hann „in season". Forréttinn má líka bera fram sem meðlæti.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta en með fræjum
- Vegan
Ferskur aspars með appelsínu-sesamsósu
Fyrir 2
Innihald
- 500 g ferskur aspars
- 1 msk sesamfræ
- 2 msk hrísgrjónaedik
- 2 tsk Dijon sinnep
- 1 tsk tamarisósa
- 1 tsk engiferrót, rifin fínt
- 1 tsk appelsínubörkur, rifinn fínt
- 1 hvítlauksrif pressað
- 0,5 tsk agavesíróp
- 1 msk sesamolía
- 1 msk ólífuolía
Aðferð
- Skerið u.þ.b. 5 cm bita af endanum af hverjum aspars og skafið síðan neðri hlutann með grænmetisflysjara.
- Sjóðið asparsinn í léttsöltu vatni í u.þ.b. 5 mínútur.
- Hellið vatninu varlega af og skolið asparsinn undir rennandi, köldu vatni.
- Þerrið asparsinn og geymið í kæli í 30 mínútur eða lengur.
- Léttbrúnið sesamfræin á þurri pönnu og kælið.
- Hrærið saman edikið, sinnepið, tamarisósuna, engiferrótina, appelsínubörkinn, hvítlaukinn og agavesírópið.
- Bætið sesamolíunni og ólífuolíunni smátt og smátt saman við og þeytið vel á meðan svo allt blandist vel saman.
- Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk og geymið sósuna í kæli þangað til maturinn er borinn fram.
- Leggið nokkra asparsstöngla á forréttardiska (má hafa salatblöð með) dreypið sósunni yfir og stráið sesamfræjum svo yfir allt saman.
Gott að hafa í huga
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að hún inniheldur hveiti.
- Gera má sósuna deginum áður en best er að sjóða asparsinn ekki fyrr en rétt áður en á að bera hann fram.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025