Eplakaka Sigrúnar Erlings
16. ágúst, 2003
Þessa uppskrift af eplaköku gaf Sigrún Erlings, mágkona mín mér. Hún sagði að allir á heimilinu lofuðu hana í hástert og þar sem hún er holl líka hentaði hún vel mínum búskap og eldhúsi!!! Við Jóhannes prófuðum hana svo hérna í London og hún var mjög góð. Ég er reyndar búin að taka út hvítan sykur og notaði rapadura sykur í staðinn. Einnig nota ég kókosolíu í stað smjörs og spelti í stað hveitis. Það er ekki til að gera kökuna endilega bragðbetri heldur, eins og venjulega er ég bara að sníða kökuna að mínum dyntum! Ég bæti yfirleitt söxuðum hnetum saman við (valhnetur, pecanhnetur eða heslihnetur) og þær passa ægilega vel við.
Athugið að þið þurfið 24 sm kringlótt, eldfast mót fyrir þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án hneta
Eplakaka Sigrúnar Erlings
Ein kaka fyrir 4-6
Innihald
Fylling:
- 550 g sæt, grængul epli (3-4 epli), skorin í smáa bita eða þunnar sneiðar
- 2 msk spelti
- 1 tsk kanill
- 1 tsk múskat (enska: nutmeg)
- 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 40 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 2 msk hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp
- 1 msk sítrónusafi
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 2 msk kókosolía
Deig:
- 60 g spelti
- 0,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 40 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 2 msk hreint hlynsíróp eða agavesíróp
- 2 msk kókosolía
- 1 msk appelsínu- eða eplasafi
- 2 lítil egg, hrærð saman
Aðferð
- Byrjið á fyllingunni:
- Kjarnhreinsið eplin og skerið þau í smáa bita (minni en sykurmola).
- Blandið saman í stóra skál: spelti, kanil, múskati og salti. Hrærið vel.
- Hrærið saman hlynsírópi, hrásykri, sítrónusafa, vanilludropum og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina ásamt eplabitunum.
- Hellið fyllingunni í 24 sm eldfast mót (óþarfi er að smyrja mótið). Fyllingin virkar mjög efnislítil en það þarf bara að dreifa henni vel um botninn í örþunnu lagi og hún mun svo dreifast betur í bakstri. Gott er að nota mjúka sleikju.
- Nú skuluð þið undirbúa deigið:
- Hrærið eggin létt.
- Í stóra skál skuluð þið blanda saman spelti, lyftidufti og salti. Hrærið vel.
- Í aðra skál skuluð þið blanda saman rapadura hrásykri, hlynsírópi, kókosolíu, appelsínusafa og eggjum. Hellið út í stóru skálina og blandið vel saman.
- Hafið deigið frekar þétt, þ.e. ekki blautt og bætið spelti við þangað til það verður þannig að það dropar af sleif í stórum klessum.
- Dreifið deiginu yfir fyllinguna með matskeið (dreifið eins jafnt úr því og þið getið en ekki hafa áhyggjur þó það þeki ekki allt yfirborðið því deigið mun dreifa aðeins úr sér í bakstri).
- Bakið við 180°C í 25-30 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Það er gott að bera fram cashewhneturjóma (eða þeyttan rjóma) og fyrir allra mestu sælkerana er gott að bera fram vanilluís. Það slær allavega í gegn hjá Jóhannesi :)
- Gott er að setja um 50 g saxaðar valhnetur, pecanhnetur eða heslihnetur ofan á eblabitana.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2023
Ummæli um uppskriftina
20. ágú. 2012
er múskat ekki bara krydd, finn það hvergi þar sem ég bý, kemur eitthvað í staðinn fyrir það?
20. ágú. 2012
Jú múskat er krydd (á ensku heitir það nutmeg). Þú getur notað 1/4 tsk af negul í staðinn eða aðeins meiri kanil. Múskat gefur aðeins sterkara kryddbragð heldur en kanill eingöngu og passar mjög vel með eplum.
14. jan. 2014
Kærar þakkir fyrir að deila þessari dásamlegu uppskrift með okkur. Besta eplakaka sem ég hef smakkað og ég get alveg staðfest að það passar mjög vel að setja saxaðar valhnetur og pekanhnetur á eplabitana :)
15. jan. 2014
Dásamlegt að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)
08. jún. 2014
Hæ!ég bakaði kökuna skv leiðbeiningum en fyllingin í botninum er enn blaut? Á hún að snúa öfugt og vera með blauta gumsinu ofan á eftir bakstur?
Takk fyrir góða síðu
08. jún. 2014
Nei fyllingin á að vera í botninum og svo seturðu deigið ofan á. Fyllingin er frekar "blaut" og svo er það sem ofan á aðeins harðara. Maður á t.d. ekki að geta skorið fallega sneið úr kökunni, eplafyllingin á að rúlla svolítið af kökuspaðanum (helst ekki saman). Ef deigið ofan á er tilbúið (og gullið) þá er kakan líklega alveg eins og hún á að vera þ.e. þá er hitastig og annað rétt. Ef deigið ofan á er of blautt þá er hitinn of lágur (bakstursofninn gamall?) eða of mikill vökvi til staðar (t.d. geta egg verið of stór, ef speltið er gamalt tekur það minni vökva í sig o.fl.)......Bakaðu hana við lágan hita (100°C í um 20 mínútur til viðbótar og sjáðu hvort hún verði skapleg) :) Gangi þér vel og vonandi bragðast hún ok (ekki síst með rjóma!).
Athugaðu líka að eftir bakstur þá "þornar" kakan aðeins þ.e. heldur áfram að bakast í um 10 mínútur eða svo.
10. jún. 2014
Takk geri það.