Engiferöl
Þetta er mín útgáfa af engiferöli (Ginger Ale) sem er drykkur sem margir sem hafa búið erlendis þekkja. Á Íslandi er það ekki svo mikið þekkt en er mikið drukkið á heitum sumardögum í Bretlandi, í Bandaríkjunum og víðar. Engifer er sérlega hressandi, hefur bólgueyðandi áhrif og er afar gott fyrir meltinguna, kemur t.d ró á magann hjá þeim sem er flökurt (gott fyrir ófrískar konur eða bílveika). Mér fannst a.m.k. ekkert betra en ískalt engiferöl í óléttu! Þessi drykkur, ískaldur er alveg ferlega hressandi og upplagður til að drekka á heitum sumardegi (eða kannski volgum íslenskum sumardegi ...þeir verða nú ekki svo heitir). Drykkurinn er líka frábær detoxdrykkur og líka afar góður ef maður er með hálsbólgu eða einhverja slæmsku því hann bókstaflega rífur í kverkarnar! Meira að segja Jóhannes sem vill ekki sjá neinar hóstamixtúrur þegar hann er með hálsbólgu/hósta er farinn að biðja um engiferte og engiferdrykki og segir að virki vel.
Athugið að þið getið ráðið því hversu sterkur/sætur drykkurinn er.
Engiferöl, frískandi og hollt
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Engiferöl
Innihald
- 2x10 sm bútar af engiferi, afhýddir og saxaðir gróft
- 400 ml vatn
- 0,5 tsk sítrónusafi
- 2 msk agavesíróp (meira eftir smekk)
- Nokkrir ísmolar
Aðferð
- Afhýðið engiferið og sneiðið í mjóar sneiðar.
- Hitið vatn í litlum potti að suðu. Sjóðið engiferið í nokkrar mínútur.
- Fjarlægið engiferið fyrir frekar milt engiferbragð en látið sitja í um 30 mínútur fyrir sterkara bragð.
- Hellið vökvanum í skál og kælið í ísskáp.
- Hellið um 50-100 ml af engifersafa í 2 glös. Noti minna fyrir mildara engiferbragð. Athugið að þið getið fryst afganginn og notað síðar.
- Bætið sítrónusafanum og agavesírópinu út í og hrærið vel.
- Hellið ísköldu vatni ofan í glösin með engifersafanum og fyllið þau. Hrærið vel og setjið ísmolana út í.
- Berið fram strax og með skeiðum svo að fólk geti hrært í glasinu sínu (því engiferið sest aðeins á botninn).
Gott að hafa í huga
- Ef ykkur finnst engiferbragðið of sterkt má þynna drykkinn með meira af köldu vatni. Mér finnst ekki gott að hafa hann of bragðmikinn heldur á drykkurinn að vera meira svalandi en sterkur.
- Bæta má hreinu sódavatni út í ef þið viljið.
- Gott er að sjóða meira magn í einu og eiga í ísskápnum. Geymist í u.þ.b. viku og um 3 mánuði í frystinum.
- Bætið meira af agavesírópi út í fyrir sætari drykk.