Einföld fiskisúpa

Þessi fiskisúpa er bæði einföld og ódýr og upplögð þegar maður á t.d. ýsusporð (ýsuafgang) í ísskápnum. Sem er oft einmitt í miðri viku. Þessi súpa kemur úr bókinni The Soup Bible sem er svo sannarlega biblía að mínu skapi enda uppfull af góðum súpuuppskriftum. Ég elska súpur... helst ef þær eru bragðsterkar (ekki of samt) og heitar. Með nýbökuðu brauði finn ég hamingjuna streyma um mig með hverri skeið. Sérstaklega ef er kalt í veðri. Ég skil ekki kaldar súpur, finnst þær algjörlega tilganslausar. Kaldar súpur eiga að heita drykkir í súpuskál. Það ruglar mig að borða kalda súpu með skeið. Ég verð eins og pínu einhverf og verð hrikalega óróleg þegar ég sit fyrir framan skál af einhverju köldu sem heitir súpa því það er eitthvað svo algjörlega rangt við kaldar súpur, algjörlega rangt. Ég er kannski bara með „kaldsúpu-fælni” (chillsoupaphobia ha ha) en líklega er ég nú bara sérvitur!

Upprunaleg uppskrift innihélt rjóma og meiri vökva en mér finnst betra að hafa hana aðeins þykkari og bragðmeiri og rjóminn finnst mér óþarfur nema spari. Þessi súpa hentar vel fyrir þá sem eru með glúteinóþol eða ofnæmi því það er ekkert hveiti eða spelti í súpunni. Súpan ætti eiginlega að heita Ódýra, einfalda, ósparilega fiskisúpan í miðri viku en Einföld fiskisúpa er kannski meira aðlaðandi.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Einföld fiskisúpa

Fyrir 4

Innihald

 • Hálfur laukur, saxaður gróft
 • 175 g sæt kartafla, afhýdd og söxuð gróft
 • 175 hvítur fiskur (t.d. ýsa, þorskur, steinbítur), bein- og roðhreinsaður
 • 50 g gulrót, söxuð
 • 1 tsk oregano
 • 0,5 tsk kanill
 • 1 lítri vatn
 • 2 gerlausir grænmetisteningar
 • 3 msk fiskisósa (Nam Plah)
 • 75 ml léttmjólk (eða matreiðslurjómi, spari)
 • 1 msk tamarisósa eða meira eftir smekk

Aðferð

 1. Afhýðið lauk, sætu kartöfluna og gulrótina og saxið gróft.
 2. Setjið laukinn, kartöfluna, gulrótina í pott, ásamt oregano, kanil og 800 ml af vatni. Bætið einnig grænmetisteningunum og fiskisósu saman við. Ef þið eruð með fiskiafganga (ekki ósoðinn fisk) þá skuluð þið ekki setja fiskinn út í strax. Ef þið eruð með hráan fisk setjð þið hann út í hér.
 3. Sjóðið í um 10 mínútur.
 4. Kælið aðeins.
 5. Notið töfrasprota eða matvinnsluvél og maukið allt vel (ef þið eruð með matvinnsluvél, maukið þá í litlum skömmtum). Ef þið eruð með fiskiafganga þá má setja þá út í hér og mauka áfram.
 6. Setjið súpuna aftur í pottinn, bætið mjólkinni og afganginum af vatninu við (ef þarf) og hitið að suðu.
 7. Berið fram með snittubrauði eða öðru brauði.

Gott að hafa í huga

 • Það má gjarnan skilja eftir smávegis af fiskinum til að setja út í ef maður vill hafa smávegis til að bíta í (þ.e. grófari áferð á súpunni).
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Athugið að best er að nota töfrasprota, matvinnsluvél eða blandara til að mauka súpuna.
 • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
 • Nota má hafrarjóma í staðinn fyrir matreiðslurjóma ef maður vill hafa súpuna matarmeiri. Ég er mjög hrifin af hafrarjómanum frá Oatly.