Eggaldin- og tómataofnréttur frá Kenya

Eggaldin og tómatar eru mikið notað hráefni í Kenya og þessi réttur er svona ekta heimilismatur (hjá þeim sem eiga á annað borð eldavél!) og vel seðjandi með góðu brauði. Þó hann sé seðjandi þá er hann léttur og fínn líka því í honum er hrein jógúrt og magur ostur. Í Kenya er yfirleitt notaður geitaostur (geitaafurðir eru mjög ríkjandi í Kenya eins og víða í Afríku) en ég myndi frekar borða málningu heldur en nokkuð sem inniheldur geitaafurð því mér finnst bragðið af öllu því sem kemur úr geitum alger viðurstyggð (og mér skilst að ég sé eina manneskjan í gjörvöllum heiminum sem hefur þá skoðun). Þessi réttur er ekki ólíkur grænmetislasagna að uppbyggingu en inniheldur þó ekkert pasta.

Gott er að leyfa tómötunum að malla svolítið lengi. Athugið að þið þurfið stórt eldfast mót fyrir þennan rétt (um 30 sm að lengd).


Afrískur og heimilislegur ofnréttur

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Eggaldin- og tómataofnréttur frá Kenya

Fyrir 6

Innihald

  • 2 stór eggaldin (enska: egglant/aubergine), sneidd frekar gróft
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 laukar, afhýddir og sneiddir frekar fínt
  • 2 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
  • 1 kg tómatar, saxaðir gróft (eða úr dós)
  • 2 mtsk tómatmauk
  • 1 msk basil, þurrkað
  • 1 msk agavesíróp
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Svartur pipar eftir smekk.

Ostasósan:

  • 500 ml hrein jógúrt
  • 25 g ferskur parmesan, rifinn
  • 100 gr  magur ostur, rifinn
  • 25 g kotasæla (eða mjúkur geitaostur fyrir þá sem vilja)
  • 25 g brauðmylsna (úr grófu speltbrauði)

Aðferð

  1. Afhýðið laukinn og sneiðið fínt.
  2. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
  3. Sneiðið eggaldin frekar gróft.
  4. Hitið kókosolíuna í stórum potti. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
  5. Hitið eggaldinsneiðarnar þangað til þær eru orðnar gullbrúnar á báðum hliðum. Takið úr pottinum og geymið.
  6. Steikið laukinn og hvítlaukinn þangað til hvoru tveggja er orðið gullbrúnt. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
  7. Bætið tómötum, basil, tómatmauki og agavesírópi út í. Bætið salt og pipar við eftir smekk.
  8. Látið suðuna koma upp, lækkið á hitanum og leyfið öllu að malla í um 30-40 mínútur eða þangað til vökvinn af tómötunum fer að gufa upp.
  9. Takið af hitanum og leyfið aðeins að kólna.
  10. Rífið magra ostinn sem og parmesan ostinn.
  11. Malið tvær brauðsneiðar í matvinnsluvél eða notið brauðrasp úr speltbrauði.
  12. Blandið jógúrti, parmesan, kotasælu, 50 g af rifna ostinum og brauðmylsnu saman.
  13. Skiptið eggaldinsneiðunum í þrjá skammta. Setjið fyrsta skammt af eggaldinsneiðunum í stórt eldfast mót (um 30 sm að lengd).
  14. Setjið tómatablönduna ofan á, smyrjið vel yfir allt.
  15. Setjið ostasósunni ofan á.
  16. Endurtakið og endið á eggaldinsneiðum efst.
  17. Setjið afganginn af rifna ostinum yfir og smávegis af meira parmesan ef þið viljið.
  18. Bakið við 180°C í um 30 mínútur.
  19. Athugið að það getur komið svolítill vökvi af tómötunum þegar þeir byrja að bakast en það er alveg eðlilegt.

Gott að hafa í huga

  • Gera má réttinn glúteinlausan með því að nota glúteinlaust brauðrasp eða með því að mala 2 glúteinlausar hrökkbrauðsneiðar í matvinnsluvél.
  • Nota má sojaost í staðinn fyrir venjulegan ost. Einnig má nota sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ummæli um uppskriftina

santa
09. apr. 2013

Mér finnst þessi mjög góður. Brúnaður/aðeins steiktur eggaldin gefur gott bragð. Ég prófaði þennan í síðustu viku og er að fara að gera hann aftur í kvöld :)

sigrun
09. apr. 2013

Gaman að heyra, takk fyrir að deila með okkur :)