Eftirréttur úr sojajógúrti

Prótín, vítamín og flókin kolvetni, kalk og engar mettaðar fitusýrur til að stífla æðarnar. Uppskriftin að hinum fullkomna eftirrétti? Já líklega. Þessi eftirréttur er einfaldur og mjög hollur og hentar þeim sem hafa mjólkuróþol eða þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan) þ.e. ef ekki er notað hunang í muesliið.

Þó að ég geri þennan rétt gjarnan sem eftirrétt má líka borða hann sem morgunmat (og nota þá minna af sultu og sleppa hlynsírópinu).


Eftirrétturinn; sumar og sólskin í glasi

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án glúteins
 • Án hneta

Eftirréttur úr sojajógúrti

Fyrir 2-3

Innihald

 • 300 ml hrein sojajógúrt
 • 100 ml jarðarberjasulta (án viðbætts sykurs)
 • 2 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
 • 4 msk muesli eða granola (ekki með hvítum sykri)

Aðferð

 1. Takið til 2 glær glös með frekar breiðum botni (til dæmis eins og viskíglas).
 2. Hrærið sojajógúrtið og hlynsírópið vel.
 3. Skiptið sultunni jafnt á milli glasanna tveggja, passið að hún fari vel yfir botninn og þeki hann allan. Bætið við meira ef þarf.
 4. Hellið sojajógúrtinu varlega ofan á.
 5. Dreifið mueslinu varlega ofan á (einnig má setja það á botninn).
 6. Berið fram kalt en geymið þó ekki í ísskáp lengi því þá verður mueslið lint.

Gott að hafa í huga

 • Það er hægt að nota alls konar sultur í þennan eftirrétt t.d. úr bláberjum, blönduðum berjum, brómberjum, rifsberjum, apríkósum, eplum o.s.frv. Einnig má sjóða eigin ávexti í svolitlum eplasafa t.d. döðlur eða epli og mauka svo vel í matvinnsluvél. Ég hef notað sultur frá St. Dalfour en einnig eru sulturnar frá Himneskri hollustu góðar. Gætið þess bara að kaupa ekki sultur sem eru sykurbættar.
 • Hægt er að nota AB mjólk eða jógúrt en bætið þá 1 msk af hlynsírópi við til viðbótar. Mér finnst persónulegra, passa betur að nota sojajógúrt.
 • Ég nota Alpro jógúrtið en hægt er að kaupa aðrar tegundir í stærri matvöruverslunum eða heilsubúðum.
 • Blanda má sultunni saman við jógúrtið í stað þess að setja hana í botninn.
 • Ég nota eigið muesli en einnig má kaupa muesli eða granola í heilsubúð. Gætið þess bara að það sé ekki með hvítum sykri. Kaupið lífræna framleiðslu og það er skömminni skárra að kaupa muesli/granola sem er hunangsristað/ristað með hrísgrjónasírópi eða byggmaltsírópi en eitthvað með hvítum sykri.
 • Ef þið hafið glúteinóþol, getið þið notað glúteinlaust muesli.