Döðlubitakökur með carob

Það tók mig svolítnn tíma að smíða þessa glúteinlausu uppskrift, annað hvort var deigið allt of lint, allt of þurrt eða bara vont. Ég held að ég hafi loksins náð góðri niðurstöðu. Hún var að a.m.k. það góð að enginn þeirra sem borðaði kökurnar áttuðu sig á því að þær voru án glúteins og þær gjörsamlega hurfu af bökunarplötunni. 


Fínar og glúteinlausar smákökur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur

Döðlubitakökur með carob

Gerir 20 stykki

Innihald

  • 25 g carob (ljóst eða dökkt)
  • 25 g kartöflumjöl (e. potato flour)
  • 50 g hrísmjöl (e. rice flour)
  • 25 g kjúklingabaunamjöl (e. chick pea flour/gram flour)
  • 25 g möndlumjöl (eða möndlur malaðar fínt)
  • 60 g döðlur, saxaðar smátt
  • 60 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 4 msk kókosolía
  • 2 msk demerara sykur (má sleppa)
  • 1 stórt egg

Aðferð

  1. Ef þið fáið ekki möndlumjöl, malið þá möndlurnar mjög fínt í matvinnsluvél (án þess að þær verði maukaðar eða olíukenndar).
  2. Saxið döðlurnar smátt.
  3. Sigtið saman í skál; carobduft, hrísmjöl, kartöflumjöl, kjúklingabaunamjöl og hrísmjöl. Hrærið vel. Bætið möndlumjölinu út í skálina og hrærið vel.
  4. Í aðra skál skuluð þið hræra saman egg og rapadura hrásykur. Bætið kókosolíunni saman við og hrærið vel.
  5. Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og hrærið vel. Hnoðið í stóra kúlu.
  6. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið matskeið af deigi á plötuna.
  7. Ýtið létt ofan á hverja köku með gaffli (dýfið í vatn áður).
  8. Dreifið demerara sykrinum yfir kökurnar (má sleppa)
  9. Bakið við 180°C í 12-15 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að setja hnetur og saxað carob (eða súkkulaði) út í deigið.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Möndlumjöl og mjöl í glúteinlausan bakstur fæst í heilsubúðum.
  • Einnig fæst carobduft í heilsubúðum. Nota má kakó í staðinn.
  • Nota má glúteinlaust mjöl (fyrir almennan bakstur) í staðinn fyrir mjölið sem ég nota hér að ofan.