Döðlu- og bananakaka

Ok í fyrsta skipti sem ég gerði þessa köku, notaði ég bókhveiti og ég sver það, botninn varð á litinn og bragðið eins og sement, hvorki ég né Jóhannes gátum borðað kökuna, jakk. Ég gerði fleiri tilraunir og nú er ég farin að nota spelti. Kannski hefur bókhveitið sem ég notaði í upphafi verið skemmt?

Athugið að til að útbúa þessa uppskrift þurfið þið matvinnsluvél og 22 sm smelluform.

Athugið að ef þið eruð ekki hrifin af bönunum (og eruð þar af leiðandi stórskrýtin!) má nota vel þroskaðar perur eða vel þroskað mango í staðinn (sneitt í þunnar sneiðar).

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Döðlu- og bananakaka

Gerir 1 köku

Innihald

Botn:

  • 100 g cashewhnetur, malaðar í matvinnsluvél
  • 60 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 150 g spelti
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 60-70 ml sojamjólk 
  • 60 ml sjóðandi heitt vatn
  • 5 msk kókosolía 
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Krem:

  • 80 g cashew hnetur, maukaðar í matvinnsluvél
  • 120 g döðlur, saxaðar gróft, soðnar og svo maukaðar
  • 125 ml appelsínusafi
  • 2 msk kartöflumjöl (eða maísmjöl)
  • 2 msk kakó (má sleppa)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • Vatn eftir þörfum
  • Ofan á: 2 bananar, vel þroskaðir, sneiddir
  • Ofan á: Kanill eftir smekk

Aðferð

Aðferð - Botn:

  1. Setjið cashewhnetur í matvinnsluvél og blandið í um 1 mínútu eða þangað til hneturnar verða fínkornóttar (en ekki maukaðar). Blandið lengur ef þarf. Setjið hneturnar í stóra skál og bætið rapadura sykrinum saman við.
  2. Sigtið spelti og vínsteinslyftiduft út í skálina og hrærið vel.
  3. Hrærið saman sojamjólk, heitu vatni og vanilludropum. Bætið kókosolíu út í og hrærið vel.
  4. Hellið vökvanum út í stóru skálina og hnoðið/hrærið deigið lauslega. Það verður mjög klístrað.
  5. Takið til 22 sm smelluform og klæðið það með bökunarpappír. Setjið deigið í formið og jafnið vel.
  6. Bakið við 180°C í um 20-25 mínútur.
  7. Kælið.

Aðferð - Krem:

  1. Saxið döðlurnar gróft og setjið í pott ásamt appelsínusafanum. Sjóðið döðlurnar í 10-15 mínútur eða þangað til maukaðar. Kælið.
  2. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og blandið í um 2 mínútur eða þangað til vel maukaðar. Geymið í matvinnsluvélinni.
  3. Setjið döðlumaukið í matvinnsluvélina ásamt kartöflumjöli, kakói, salti og vanilludropum. Blandið í 10 sekúndur.
  4. Bætið eins miklu af vatni eða sojamjólk út í og þið þurfið til að blandan verði þykk og mjúk (þannig að hún renni af sleif í stórum kekkjum en ekki í dropatali).
  5. Skerið bananana í sneiðar og raðið ofan á kökuna.
  6. Smyrjið kreminu yfir og dreifið svo kanil yfir ef þið viljið.

Gott að hafa í huga

  • Kremið sjálft mætti alveg nota á aðra kökubotna því það er mjög gott (og dísætt).
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Gera má kökuna glúteinlausa með því að nota bókhveiti eða annað glúteinlaust mjöl.
  • Ef þið hafið óþol eða ofnæmi fyrir kakói má nota carobduft í staðinn.
  • Nota má vel þroskaðar perur eða vel þroskað mango (sneitt í þunnar sneiðar) í staðinn fyrir banana.