Chili non carne (chillipottréttur með sojakjöti)

Þessi réttur lætur ekki mikið yfir sér, en er mjög góður og einfaldur, upplagður í miðri viku. Best er að gera svolítið stóran skammt og taka með sér í nestisboxið eða borða í hádegismat heima. Uppskriftin er án glúteins en athugið sojakjötið sem þið kaupið upp á ef skyldi vera glútein í því (ætti ekki að vera). Kaupið sojakjötið endilega úr heilsubúð og það ætti að vera Non-GMO þ.e. ekki erfðabreytt.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Chili non carne (chillipottréttur með sojakjöti)

Fyrir 4

Innihald

 • 150 g sojakjöt (hakk)
 • 1 gerlaus grænmetisteningur 
 • 0,5 tsk hvítlaukssalt (t.d. frá Pottagöldrum) eða 1 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 1 laukur, afhýddur og saxaður smátt
 • 1 tsk kókosolía
 • 2 tsk cumin (ekki kúmen)
 • 1 tsk chili pipar
 • Smá klípa oregano
 • 0,5 tsk svartur pipar
 • 1 tsk agavesíróp 
 • 2 msk kartöflumjöl eða spelti
 • 460 g saxaðir tómatar úr dós
 • 460 g nýrnabaunir úr dós
 • 1 vel þroskað avocado, afhýtt og skorið í teninga

Aðferð

 1. Setjið sojakjötið í skál og bútið gerlausa grænmetisteninginn út í skálina.
 2. Sjóðið vatn og hellið nægilega mikið af heitu vatni yfir sojakjötið þannig að það fljóti yfir. Hrærið mjög vel og hellið meira vatni út ef þarf. Látið sojakjötið liggja í vökvanum í um 30 mínútur.
 3. Afhýðið laukinn og saxið smátt. Ef notað er hvítlauksrif afhýðið það þá og saxið smátt.
 4. Hitið kókosolíu í djúpum potti. Steikið laukinn í 5-7 mínútur og bætið hvítlauknum út í (ef ekki er notað hvítlauksduft). Notið vatn ef þarf meiri vökva.
 5. Látið sojakjötið út í (ætti að vera búið að drekka í sig allan vökvann).
 6. Blandið saman cumen, chili pipar, oregano, hvítlaukssalti, pipar, agavesírópi og kartöflumjöl og hellið yfir sojakjötið.
 7. Sjóðið við meðalhita í 5 mínútur og hrærið í oft á meðan.
 8. Bætið tómötunum og safanum af þeim í pottinn.
 9. Látið vökvann renna af nýrnabaununum og setjið baunirnar í pottinn. Látið krauma í 25-30 mínútur.
 10. Afhýðið avocado, fjarlægið steininn og saxið í bita.
 11. Skiptið pottréttinum jafnt á diska og setjið avocadobita ofan á hvern disk. Einnig má bera fram avocadoið á sér diski.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með byggi eða hýðishrísgrjónum. Einnig er gott að nota nýbakað chapati með réttinum.
 • Það er mjög gott að nota meira grænmeti í réttinn eins og t.d. sveppi, spergilkál, maískorn, paprikur o.fl.
 • Ef þið viljið búa til meiri mat úr þessum rétti (ef margir eru í mat), þá mætti bera fram „hollar” nachosflögur (úr heilsubúð). Nachosflögur eru svo sem aldrei hollar en þær sem þið kaupið í heilsubúð eru margfalt hollari en þær sem keyptar eru í matvöruverslunum.
 • Gott er að bera fram 5% sýrðan rjóma (frá Mjólku, án gelatíns) með matnum, eða hreina jógúrt.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.